Dýralíf
Hvalir á Reykjanesi
Hvalir eru algengir kringum Reykjanesskagann, allt frá Krýsuvíkurbergi að Vogastapa. Nóg æti er fyrir þá, sérstaklega á sumrin þar sem þeir elta ýmsar fisktegundir inn á Faxaflóa. Hrefna sést mjög mikið og höfrungategundin hnýðingur. Oft á sumrin koma hópar af hnúfubak. Sést hefur líka háhyrningur, langreyður og jafnvel steypireyður sem er stærsta dýr jarðarinnar.
Hvalnes
Hvítanes
Hvítanes er staðsett á nesinu milli Hestfjarðar og Skötufjarðar. Frá Hvítanesi er gott útsýni yfir Ísafjarðardjúpið og Vigur. Það sem leynist í fjörunni við bæinn er það sem fær flesta til þess að nema staðar. Á klöppunum og skerjunum rétt fyrir utan liggja yfirleitt nokkrir selir og stundum nokkrir tugir þeirra. Það eru fáir staðir á Íslandi sem bjóða upp á jafn mikla nálægð við þessi dýr líkt og Hvítanes. Bændurnir í Hvítanesi hafa einnig gert svæðið skemmtilegra með því að setja upp borð og bekki og bjóða gestum einnig að fá lánaða sjónauka til þess að geta komist í meira návígi við selina.
Höfði í Mývatnssveit
Ingólfshöfði
Jökulsárlón
Krossanesborgir
Lagarfljót og Lögurinn
Lagarfljót er stærsta vatnsfall Austurlands og eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Eyjabakkajökli til Héraðsflóa eða um 140 km leið. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið, gjarnan kallað Lögurinn, nær frá Fljótsbotninum í Fljótsdal og út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Það er um 53 ferkílómetrar að stærð og er meðaldýpi um 51 m en mesta dýpi 112 m. Sagt er að þar séu heimkynni Lagarfljótsormsins.
Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn og er fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum frá 1345. Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu. Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum.
Áningarstaðir eru víða kringum fljótið og þar er kjörið að staldra við og líta eftir orminum.
Látrabjarg
Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.
Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.
Lónið
Lónið fyrir innan Suðureyri hefur frábæra möguleika á því að komast nær náttúrunni. Bæði er fuglalíf þar í blóma en einnig eru fiskar í lóninu. Við mælum með því að hafa samband við Fisherman á Suðureyri og fá að kaupa fisk til þess að gefa fiskunum í Lóninu. Það má einnig ræða það við Fisherman hvort möguleiki sé á því að veiða fiskana í Lóninu.
Hringsbjarg
Hringsbjarg er staðsett á austanverðu Tjörnesi. Þaðan er stórbrotið útsýni yfir fjallgarð Öxafjarðar og heillandi svarta strönd sem er í nágrenninu og auðvelt að komast að.
Við Hringsbjarg er stór útsýnipallur, gott bílastæði og upplýsingaskilti. Þetta er hinn fullkomni staður til að stoppa og teygja úr sér, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta útsýnisins og kyrrðarinnar.
Í bjarginu er mikið fuglalíf sem gaman er að skoða.
Mývatn verndarsvæði
Óbyggðasetur
Óbyggðasetrið býður upp á fjölbreytta afþreyingu, heimilislegan veitingastað og gistingu í einstöku umhverfi. Lifandi sýning Óbyggðasetursins um ævintýri óbyggðanna hentar gestum á öllum aldri. Fjöldi gönguleiða er í nágrenninu og margar þeirra henta fjölskyldufólki vel. Dæmi um styttri göngu er eyðibýlagangan sem liggur inn með ánni að endurgerðum kláf sem gestum er velkomið að prófa. Einnig eru á staðnum baðhús og náttúrulaug þar sem dásamlegt er að njóta óbyggðakyrrðarinnar.
Papey
Papey var eina eyjan sem byggð var úti fyrir Austfjörðum. Nafngiftina hreppir hún frá keltneskum eða írskum einsetumönnum sem hélt þar til áður en land byggðist. Frá þeim segir í Landnámabók en ekki hefur verið unnt að staðfesta búsetu fyrir landnám. Flestir bjuggu í eyjunni árið 1726 en síðasti eybúinn hét Gísli og bjó þar til 1948. Eyjan er gósenland fugla og menningminjar víða. Þar er að finna elstu timburkirkju landsins.
Refir
Heimskautarefurinn er eina spendýrið á Íslandi sem hefur komið hingað til lands án hjálpar mannsins. Stór. hluti af íslenska tófustofnsins er á Vestfjörðum og halda dýrin mikið til í kringum stór fuglabjörg og strendur. Að vetrinum til er refurinn hvítur en verður brúnn á sumrin. Refurinn var friðaður á Hornströndum árið 1995 og er orðinn ansi gæfur á svæðinu. Melrakkasetrið í Súðavík er helgað refnum og má þar sjá yrðlinga í girðingu að sumri til.
Sandvík - Grindavík - Fuglaskoðun
Sandvík - Grindavík
Stóra-Sandvík
Stóra-Sandvík er flöt og falleg vík með stórum sandöldum og miklu lóni sem fuglar sækja mikið í. Erfitt getur reynst að komast í færi við fuglana, því er gott að vera með góðan sjónauka á fæti til að skoða þá. Skúfendur, stokkendur, rauðhöfðar, urtendur og álftir eru reglulegir gestir við lónið. Í gegnum tíðina hafa sést margir flækingar enda er lónið ein af fáum vatnsvinjum á þessu svæði. Malarvegurinn við lónið og upp á sandölduna er holóttur en ætti að vera fær flestum bílum. Ekki er mælt með því að keyra niður í víkina þar sem auðvelt er að festa bíl þar og flóðastaðan er fljót að breytast.
Reykjanes – Eldey, Valahnjúkur og Karl
Reykjanesið er ysta og vestasta nesið á Reykjanesskaga sem dregur nafn sitt af þessu nesi. Þar er líklega eina kríuvarpið í heiminum staðsett á hverasvæði. Í flestum tjörnum á svæðinu gætir sjávarfalla og einstök lífkerfi þrífast í þeim tjörnum. Vaðfuglar sækja í þessar tjarnir í leit að æti og skjóli. Frábærar aðstæður eru til sjófuglaskoðunar á svæðinu enda eru rík fiskimið á Reykjaneshryggnum nálægt landi. Hægt er að keyra að Reykjanesvita og niður að Valahnjúk. Þar er hægt að ganga upp að bjargsbrún og fylgjast með verpandi ritum og fýlum í klettaveggjunum. Rétt utar sést Karlinn standa í sjónum en þar verpa ritur, fýlar og stöku álkur. Þegar horft er út á hafið stendur Eldey tignarleg upp úr hafinu. Eldey er stærsta súlnabyggð á Íslandi með um 14-18.000 pör en aðrar varptegundir eru ritur, langvíur, stuttnefjur og fýlar.
Víkur
Þegar ekið er stuttan spöl frá Reykjanesvita í átt að Grindavík eftir malarvegi niður í Mölvík að gömlum niðurrifnum húsum á hægri hönd. Ef honum er fylgt út að enda og gengið niður að sjó má oft sjá stóra hópa æðarfugla. Í þeim leynast oft hrafnsendur, korpendur, kolendur og æðarkóngar.
Arfadalsvík
Affall fiskeldisins á Stað lokkar til sín marga máfa, andfugla og jafnvel vaðfugla sem sækja í næringarríkt setið. Nokkrar litlar víkur eru á svæðinu og í sumum þeirra safnast upprekið þang sem dregur til sín vaðfugla í fæðuleit. Arfadalsvík er langstærst þessara víka og er einstaklega lífrík. Gott skjól er í víkinni miðað við mikla og ríkjandi austlæga strauma. Fyrir vikið er botndýralíf mikið og fuglalíf endurspeglar það. Að vetri er hægt að ganga að 5-15 straumöndum vísum við gamla bryggju innst í víkinni. Himbrimar eru stutt frá landi í ætisleit, tugir og upp í hundruð stokk- og rauðhöfðaanda er að finna í sjávarpollum og tjörnum uppi í landi alla leið að Stórubót. Margir flækingar og þar af sumir sárasjaldgæfir hafa fundist í Arfadalsvík.
Grindavík
Fyrir flækingsfuglaskoðara er Grindavík frábær staður. Vel upplýstur bærinn á suð-vestanverðu landinu dregur að sér flækinga bæði frá Evrópu og Ameríku. Höfnin í Grindavík er líka mjög góður staður fyrir flækingsmáfa og aðra sjófugla. Himbrimar í vetrarbúningi svamla um í höfninni ásamt teistum og skörfum meðan máfar hafa setstað innst í höfninni. Nokkrir góðir fuglaskoðunarstaðir eru úti á Hópsnesi. Fjörupollar eru sunnan við Höfnina í Grindavík en austan við Hópsnes er þaraskógur við Þórkötlustaðabót sem dregur að sér endur, brúsa og sjófugla.
Selir á Vestfjörðum
Á Vestfjörðum kæpa tvær tegundir sela eins og víðast hvar á landinu.
Landselur er algengur um alla Vestfirði og sést hann víða í fjörum og á annesjum árið um kring. Einnig er algengt að selir sjáist synda nálægt ströndinni og fylgjast forvitnir með því sem gerist í landi.
Útselur er sjaldgæfari og erfiðara að koma auga á hann. Hann er stærri en landselurinn og verður allt að 2,5m langur og 300kg.
Fleiri tegundir er hægt að sjá við Vestfirði og ekki er langt síðan Rostungur sást á Vestfjörðum, þótt slíkt sé afar fátítt í seinni tíð.
Selir liggja allajafna uppi um háfjöru, en eru við veiðar á háflóði. Veðurfar getur haft áhrif á möguleika á því að sjá sel.
Snæfell
Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands, utan jökla, og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sumar rannsóknir benda til þess að fjallið kunni enn að vera virk eldstöð, aðrar telja svo ekki vera. Snæfell er fremur auðvelt uppgöngu, en þó ekki fyrir óvana. Þá er lagt af stað skammt sunnan við Snæfellsskála sem er undir vesturhlíð Snæfells, eða frá Sandfelli að norðanverðu. Að fjallinu liggur sumarvegur sem fær er fjórhjóladrifnum bílum og dugir dagurinn til að klífa það, sé lagt upp frá Egilsstöðum snemma að morgni. Gott er að reikna með um 7-9 tímum í göngu.
Powered by Wikiloc
Stórikarl
Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær - Fuglaskoðun
Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær
Vatnsleysuströnd nær frá Vogum að Hvassahrauni (Kúagerði) í austri og er um 15 km löng. Þetta er gróðurríkt svæði, ef tekið er mið af öllu Reykjanesinu, með nokkrar tjarnir og ferskvatn sem rennur undan hrauninu niður í fjöru. Aðalvegurinn er malbikaður en aðgengi að strönd er á flestum stöðum um einkalönd. Kríuvarp er við Stóru-Vatnsleysu, æðarfuglar verpa á stangli um svæðið, máfar verpa á nokkrum stöðum og verpandi vaðfuglar eru algengir. Sjaldgæfari varpfuglar eru t.d. lómur og óðinshani. Að hausti má finna umferðarfugla svo sem rauðbrystinga, tildrur og sanderlur í ætisleit og hvíld í fjörum strandarinnar. Stakksfjörður nær frá Vatnsleysuströnd að Stakki norðan Helguvíkur.
Kálfatjarnarkirkja
Ef komið er úr austri af Reykjanesbraut inn á Vatnsleysuströndina má sjá Stóru-Vatnsleysu. Þar í nágrenninu má finna fiskeldi innan girðingar og út frá því rennur úrgangur niður í fjöru. Í úrganginn sækja máfar, endur og stöku vaðfuglar. Að hausti er sjórinn ríkur af dílaskarfi, æðarfuglum, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi. Úr Flekkuvík er fallegt útsýni og þar eru góðar hraunfjörur, en þangað er um 500 metra gangur frá vegi. Kálfatjarnarkirkja er í næsta nágrenni og þar er hægt að leggja bílnum og ganga niður að tjörn. Á tjörninni eru oft endur og vaðfuglar í köntum. Í landfyllingunni eru spörfuglar, svo sem steindeplar, þúfutittlingar og músarrindlar að vetri. Fjaran er rík af vaðfuglum, bæði í seti og grýttu þanginu. Tjarnir sem þessar eru góður staður til að sjá fáséðar endur svo sem skeiðendur, grafendur eða erlendar flækingsendur þar sem lítið er um yfirborðsferskvatn á þessum slóðum. Nokkrar tjarnir má sjá við veginn á Vatnsleysuströnd sem vert er að skoða á leið um svæðið. Fitjar er að finna á nokkrum stöðum á svæðinu. Lífríkar fitjar með margæsum, grágæsum og jafnvel heiðagæsum á fartíma sjást við fjöruna milli Álfasunds og Brunnastaðasunds, og verpandi lóm ásamt nokkrum andategundum má sjá á tjörninni austan Brunnastaða. Handan varnargarðs er hægt að finna litmerktar sanderlur á fartíma og töluvert hefur verið merkt af tjaldi á Vatnsleysuströndinni.
Vogar
Inni í Vogum er stór andapollur sem dregur að sér nokkrar tegundir anda, óðinshana og vaðfugla að sumri. Kringum tjörnina er vegur og göngustígur sem bíður upp á góð færi til ljósmyndunar. Handan tjarnarinnar er varnargarður og stór fjara. Í höfninni sjást teistur, hávellur og straumendur. Að sumri má sjá spörfugla grípa flugur á flugi í kringum grjótgarðinn. Þegar komið er inn í Voga, tekin fyrsta beygja til vinstri og keyrt í gegnum bæinn, endar maður á malarvegi. Malarvegurinn liggur að hliði Stofnfisks og hægt að komast þaðan niður að Vogaleirunni undir hömrum Vogastapa. Þar eru stórir hópar lóuþræla, heiðlóa, sandlóa, stelka, tjalda og annarra vaðfugla. Við útrennsli Stofnfisks er mikið um máfa og endur.
Þorbjörn og Sólbrekkuskógur
Litskrúðugur mosi og lyng er ríkjandi gróður á Reykjanesinu en lítið er um skóglendi. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur staðið fyrir smávægilegum gróðursetningum innfluttra plöntutegunda. Þar má helst nefna Selskóg við rætur Þorbjarnar, Sólbrekkuskóg við Seltjörn og Háabjalla við Snorrastaðatjarnir. Helstu tegundir sem finnast í þessum lundum eru skógarþrestir, músarrindlar, þúfutittlingar, auðnutittlingar og glókollar. Í Sólbrekkuskógi er oft að finna smyril og rjúpur eru algengar við jaðrana. Erlendir flækingsfuglar frá Evrópu og Ameríku sem vanir eru skóglendi sækja í þetta skjól í von um fæði á fartíma. Gott er að gægjast á tjarnirnar og athuga með endur eða aðra vatnafugla.
Reykjanesbær
Njarðvíkurfitjar á flóði eru með betri fuglastöðum á Reykjanesi. Þar er best að ganga um allar tjarnirnar. Vaðfuglar og spörfuglar leynast í fitjunum og köntum tjarnanna. Stokkendur, urtendur, rauðhöfðar, máfar og vaðfuglar sem bíða eftir lækkandi sjávarstöðu sjást á tjörnunum. Ljóshöfði sem er amerískur flækingur sést reglulega með rauðhöfðum á tjörninni. Hafnir Njarðvíkur, Keflavíkur og Helguvíkur halda stóra hópa æðarfugla og sjófugla. Góðar líkur eru á að sjá æðarkónga, korpendur og kolendur í hópum æðarfugla. Skarfar, teistur og selir eru oft í góðu færi í höfnunum. Á klettum við vitann í Helguvík að sumri er hægt að sjá lunda og aðra sjófugla úti á hafi og verpandi ritur og fýla í klettunum.
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli.
Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871.
Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast
Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.
Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli.
Vigur
Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur en nú eru þar engar kýr lengur. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Ferðir út í eyjuna hafa verið vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna undanfarin ár.
Lundi, æðarfugl og kría eru helstu fugarnir á eynni og eitt helst aðdráttaraflið. Lundinn er búinn að koma sér svo vel fyrir í eyjunni að hann er búinn að grafa hana nánast í sundur. Ferðamönnum sem ferðast um eyjuna er því bent á að fylgja stígnum sem útbúinn hefur verið til þess að eiga ekki á hættu að detta ofan í lundaholur.
Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi, eina kornmyllan á Íslandi og flest húsin eru nýlega uppgerð af Þjóðminjasamfninu.
Til þess að komast út í Vigur þá þarf að taka bát frá Ísafirði en ferðirnar eru skipulagðar daglega.
Hrútey
Hraunsvík - Kleifarvatn - Fuglaskoðun
Hraunsvík - Kleifarvatn
Hraunsvík
Hraunsvík er innsta víkin á svæðinu og staðsett undir Festafjalli. Þar er fínn staður til að finna stuttnefjur að veiðum og aðra svartfugla. Fýlar og ritur verpa í klettaveggjunum.
Krýsuvíkurberg
Krýsuvíkurberg er langstærsta fuglabjarg á Reykjanesinu. Þangað er um 20 mínútna akstur í austur frá af Grindavík. Frá vegi niður að bílastæði er mjög lélegur malarvegur en gangan er ekki löng. Það tekur um 20-30 mínútur að ganga allt bjargið. Þarna eru um 21.000 ritur, 20.000 langvíur, 2.600 stuttnefjur, 8.700 álkur, nokkrir fýlar, toppskarfar, lundar, teistur, silfurmáfar, og ofan á klettabrúninni verpa snjótittlingar og sendlingar. Syllur eru ótraustar og aðgát skal höfð nærri bjargsbrún.
Krýsuvík og Kleifarvatn
Krýsuvík er hversvæði milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur sem geymir Grænavatn, Arnarvatn og Kleifarvatn. Þar eru verpandi vatnafuglar svo sem himbrimi, álftir, grágæsir, stokkendur, urtendur og nokkur pör toppanda. Þess á milli má á heiðum og grónu landi finna svipaða samsetningu varpfugla sem leita í ákveðin gróðurskilyrði: Heiðlóur, þúfutittlingar, stelkar, hrossagaukar, spóar, steindeplar, stöku jaðrakanar, sendlingar, lóuþrælar, kjóar, skúmar og óðinshanar.
Fuglalíf
Á Krýsuvíkurbergi og Hafnarbergi hreiðra um sig þúsundir sjófugla á hverju sumri. Þeir algengustu eru langvía, álka, stuttnefja, rita, lundi, teista, fýll og skarfur. Krýsuvíkurberg er 50 metra hár og um 57.000 pör hreiðra um sig á þessum klettum. Hæsti punktur Hafnarbergs er 43 metrar og er áætlað að fjöldi sjófugla þar séu um 6.000 pör. Fjórtán kílómetra suðvestur af nesinu er Eldey, ein stæðsta súlubyggð í heiminum. Súlan er stæðsti sjófugl í Norður Atlantshafinu og um 16.000 pör hreiðra um sig á eynni sem er einungis 0,03km² að flatarmáli og 77 metrar á hæð. Á milli meginlandsins og eyjarinnar má einnig sjá höfrunga og hvali. Skúmurinn er algeng sjón á sumrin, hann er hrææta sem hrifsar æti frá öðrum sjófuglum. Frá náttúrunnar hendi er skúmurinn ekki fær um að stinga sér til veiða.
Aðrir algengir fuglar við ströndina eru mávar, eins og sílamávar, hvítmávar og silfurmávar. Krían er algengasti fuglinn á Reykjanesinu og er hann að mestu að finna í Kríuvörpum á Reykjanesoddanum, austur af Grindavík og milli Garðs og Sandgerði. Spóinn sem fjölgar sér á Suðurnesjum, eyðir vetrunum í Afríku og krían flyst á suðurheimskautið. Heiðlóan, tjaldur, og hrossagaukurinn eru farfuglar og eru algengir á svæðinu, á meðan sendlingur er einn af fáu vaðfuglum sem flyst ekki til annara landa á veturnar. Á meðal spörfugla þá eru skógarþröstur og snjótittlingur algengir, einnig er starri á landinu allt árið um kring. Stærsti spörfuglinn er hrafninn.
Æðafuglinn er langalgengasta andartegundin á Íslandi. Á Suðurnesjum þá er æðafuglinn fjárhagslega mikilvægur, því bændur á svæðinu týna verðmætann dúninn úr hreiðrum þeirra. Grágæsinn hreiðrar um sig á láglendinu og álftin er eina tegund svana sem fjölgar sér á Íslandi.
Botnsvatn
Botnsvatn er skammt suðaustan Húsavíkur. Það er 1,05 km² og í 130 m hæð yfir sjó. Ekið er upp úr miðjum Húsavíkurbæ, eftir Ásgarðsvegi og eftir um 3 mín akstur blasir vatnið við. Búðará fellur úr því í gegnum Húsavík til sjávar.
Hægt er að ganga hringinn kringum vatnið sem er 5,4 km langur. Einnig er hægt að ganga frá Skrúðgarði eftir merktum göngustíg upp með Búðará að Botnsvatni.
Breiðafjörður
Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Drangey
Eggin í Gleðivík
Flatey
Flatey á Skjálfanda er stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við Norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikiðfuglalíf og góð fiskimið allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942, bjuggu 120 manns á Flatey en síðan 1967 hefur engin verið fasta búsetu á eynni.
Yfir sumartímann koma ferðamenn til eyjunnar og einnig fólk sem á ættir að rekja til Flateyjar. Ekki er boðið upp á gistingu í Flatey en hægt er að fara þangað sjóleiðina frá Húsavík.
Fuglar á Suðurlandi
Hraunahafnartangi
Hraunhöfn dregur nafn sitt af náttúrulegri höfn, sem þótti sæmilegt skipalægi áður fyrr og er hennar getið í heimildum frá 13. öld. Á Hraunhafnartanga er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu.
Hraunhafnartangi og Rifstangi eru nyrstu tangar fastalands Íslands, aðeins rúmum kílómetra sunnan við norður heimskautsbaug. Gestir sem koma með mynd af sér við vitann geta fengið vottorð hjá þjónustuaðilum um að hafa komið á nyrsta odda landsins.
Hafa þarf í hugsa að æðarfugl er alfriðaður á Íslandi og er öll umferð bönnuð í og við æðarvarpið frá 15.apríl til 14.júlí.
Garður - Kalmanstjörn - Fuglaskoðun
Garður
Á leið til Garðs frá Keflavík er gott að hafa augun opin fyrir snjótittlingum, rjúpum, smyrlum og ungum fálkum að vetri. Lítið er um fálkavörp á Reykjanesinu en ungir fálkar eru algengir í ætisleit að vetri. Sýkin í Garði eru með betri flækingastöðum á Íslandi. Margir sjaldgæfir flækingar hafa sést á þessum tjörnum. Ef vel er að gáð má finna grafendur, hávellur, skeiðendur, gargendur, gráhegra, ljóshöfða og fleiri sjaldgæfa íslenska og erlenda fugla. Grjótgarðurinn ofan tjarnanna er fæðukista fyrir spörfugla. Sportittlingar sjást reglulega við grjótgarðinn milli Garðs og Garðskagavita. Úti á sjó sjást flestir algengir sjófuglar. Sjaldséðari sjófuglar sjást af til svo sem hópar af skrofum að hausti, og með smá heppni má finna stormsvölur, ískjóa og gráskrofur. Því er mikilvægt að horfa til beggja átta þegar gengið er frá Garði að Garðskagavita.
Garðskagaviti
Á þessum nyrsta odda Reykjanesskagans er glæsileg aðstaða til sjófugla- og hvalaskoðunar. Mikil umferð sjófugla er nálægt landi að vori og hausti. Umferðarfuglar á leið sinni til og frá varpstöðvum stoppa við á grasi og í fjörum oddans. Upprekið þang safnar hita og býr til fullkomnar aðstæður fyrir þangflugulirfur sem nýtast vaðfuglum og máfum til átu. Himbrimar, lómar og straumendur sjást úti á sjó nálægt landi í leit að fæðu. Aðgengi er gott fyrir bæði fólksbíla og rútur. Salerni er á staðnum og stigar eru niður í fjöru þó oft sé betra að standa ofan varnargarðs og kíkja ofan í fjörurnar og út á sjó. Vegurinn milli Garðskagavita og Sandgerðis er fullur af góðum fuglaskoðunarstöðum. Ásgarður er bær rétt sunnan Garðskagavita. Þar eru oft stórir hópar heiðlóa og inni á milli má stundum finna gulllóu, glitlóu eða jafnvel fitjatítu. Einkavegir eru á flestum stöðum niður að fjöru en gott er að ganga að tjörnum og niður að fjöru við golfvöll Hafurbjarnarstaða og við Nátthaga sem staðsettur er við stóra tjörn sem heldur fjölda anda, máfa og vaðfugla. Margar tjarnir og góðar fjörur eru á þessari leið milli Garðskagavita og Sandgerðis svo mælt er með því að ganga fjöruna.
Sandgerði
Sandgerðistjarnirnar við enda Garðvegar eru varpstaðir anda, spörfugla og vaðfugla að sumri. Þær eru góður baðstaður máfa og andfugla allt árið um kring. Stokkendur, skúfendur, urtendur og grágæsir sjást allt árið þegar vök er opin. Fuglaskoðunarhús er við tjörnina en ekki er mælt með því að nýta það þar sem það er óheppilega staðsett til fuglaskoðunar. Stuttur malarvegur er við minni tjörnina sem liggur niður að sjó bak við gamla fiskvinnslu. Þar er gott að leggja bíl og skoða vaðfugla og sjófugla. Þá er hægt að keyra að Sandgerðisleirunni sem er sunnar í bænum. Ræsispípur úr fiskverkunarhúsum liggja niður í fjöruna og laða að sér fjölmargar máfategundir, fýla, hávellur, stokkendur, skarfa og fjölda vaðfugla í góðu ljósmyndunarfæri. Algengir máfar á þessu svæði eru svartbakar, sílamáfar nema að vetri, silfurmáfar, hvítmáfar, bjartmáfar að vetri, hettumáfar og stöku stormmáfar. Sumar tegundir hafa fleiri en eitt litarafbrigði og dæmi um það eru fýlar og bjartmáfar. Gráleitir fýlar með dökkar fjaðrir eru kallaðir kolapiltar meðan bjartmáfar með svart í vængendum eru kallaðir kumlien bjartmáfar. Kumlien er vestræn undirtegund bjartmáfsins og eru hún frekar algeng á Íslandi miðað við annars staðar í Evrópu. Nokkrar máfategundir flækjast til Íslands ár hvert en dæmi um þær eru dvergmáfar, amerískir silfurmáfar, hringmáfar, ísmáfar, þernumáfar og rósamáfar. Þúsundir sanderla stoppa við þessar fjörur á leið til og frá varpstöðum að vori og hausti. Margar sanderlur hafa verið litmerktar á þessum slóðum svo fuglaskoðarar eru beðnir um að lesa á merkin og senda upplýsingar til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fleiri vaðfuglar eru tildrur, sendlingar, lóuþrælar, heiðlóur, tjaldar, sandlóur, stelkar, spóar, fjöruspóar, jaðrakanar og stöku lappajaðrakanar. Fjöruspóar eru mjög sjaldgæfir varpfuglar á Íslandi. Þekkt eru örfá vörp en ekkert þeirra er á Reykjanesinu. Fjöruspóar eru þrátt fyrir það algengir vetrarfuglar í kringum Sandgerði og maður getur nánast gengið að þeim vísum í grýtta þanginu neðan kjúklingabúsins við Sandgerðisleiru.
Þekkingarsetur Suðurnesja er staðsett við Garðveg 1 og þar er hægt að finna salerni og aðstöðu til að snæða nesti fyrir lítinn pening. Þar eru þrjár sýningar, auk lifandi sjávardýra, sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af að skoða.
Norðurkot
Þegar haldið er áfram suður eftir Stafnesvegi frá Sandgerði í átt að Höfnum sjást nokkrar stórar tjarnir vestan vegar sem vert er að skoða. Við bæinn Norðurkot er mikið fuglalíf. Þar er stærsta æðarvarp Reykjanesskagans enda er það vaktað allan sólarhringinn af landeigendum gegn líklegum afræningjum. Bannað er að ganga um svæðið að sumri nema með leyfi eiganda. Fleiri fuglar nýta þessa vernd og góðu tjarnir. Þar má sjá stórt kríuvarp í góðu sílaári. Auk æðarfugla halda andfuglar til við tjarnirnar og verpa í köntum þeirra og á flóðinu sækja vaðfuglar í kantana. Sunnan Norðurkots er tjörn eða vík nefnd Fuglavík. Hún ber nafn með rentu þar sem mikið er um andfugla, vaðfugla og máfa.
Hvalsnes
Bílastæði eru næg við Hvalsneskirkju. Þaðan er hægt að ganga niður í litla vík sem oft er rík af öndum og vaðfuglum í fjöru. Með urtöndum er oft að finna ameríska rákönd. Sunnan við Hvalsnes er annað stærra nes kallað Stafnes þar sem finna má fallegan vita. Þar er hægt að horfa út á haf á fartíma eða að sumri að fylgjast með umferðarfuglum.
Ósar og Hafnir
Ósar og Ósabotnar er lífríkt svæði með setbotni sem heldur mikinn fjölda fugla. Mjög stórir hópar anda, vaðfugla og brúsa er að finna á svæðinu. Gott er að ganga frá Ósabotni að Höfnum og skoða út á hafið. Fálkar og smyrlar í leit að bráð eru algeng sjón. Að vetri sjást vel himbrimar, lómar, skarfar og fiskiendur í ætisleit út af bryggjunni í Höfnum og auðvelt er að komast í gott færi við straumendur. Fjöruspóar spígspora um í þanginu að vetri. Fínt set ríkt af botndýralífi er aðgengilegt fyrir vaðfugla á fjörunni og greinileg skipting þangbelta sést vel í hraungrýttri þangfjörunni. Ungir hafernir hafa sést í hólmum í leit að æti. Skúmar og kjóar verpa í snöggu grasinu að sumri.
Kalmanstjörn og Hafnaberg
Bílastæði er að finna sunnan við fiskeldið á vegi 425. Þar er hægt að ganga meðfram girðingu niður að Kalmanstjörn. Þar safnast straumendur saman í hóp að vetri og þar hafa sést flækingar á borð við rákönd, brandönd, gráhegra, æðarkóng og sefgoða. Þegar ekið er lengra til suðurs er bílastæði með fuglakorti. Þaðan er um 20 mínútna ganga niður að Hafnabergi og gott er að hafa augun opin fyrir verpandi kjóum á leiðinni. Hafnaberg er sjófuglabjarg með verpandi fýlum, ritum, langvíum, stuttnefjum, álkum og stöku lunda (2006). Varp byrjar í lok maí og álega er um 30 dagar og ungar eru um 20 daga í hreiðri áður en þeir stökkva til sjávar í fylgd foreldra. Fín fugla- og hvalaskoðun er frá syllunum. Syllur eru ótraustar og aðgát skal höfð nærri bjargsbrún.
Hafnarhólmi
Í Hafnarhólma, sem stendur við bátahöfnina á Borgarfirði eystri, er afar gott fuglaskoðunarsvæði en hvergi á Íslandi er jafn auðvelt að komast í návígi við lunda. Lundinn sest upp í hólmann um miðjan apríl ár hvert og elur þar unga sína fram í ágúst, þegar hann heldur út á haf aftur fyrir veturinn. Í Hafnarhólma er einnig allstórt æðarvarp auk þess sem þar má sjá ritu og fýl og aðrar fuglategundir sem halda til í og við hólmann.
Borgfirðingar hafa undanfarin ár byggt upp góða aðstöðu fyrir fuglaáhuga- og útivistarfólk í kringum bátahöfnina. Fróðleikur um höfnina, fugla og náttúrufar eru til reiðu fyrir gesti og upp í hólmann liggja góðir göngupallar. Árið 2020 opnaði Hafnarhúsið þar sem meðal annars eru haldnar listasýningar og gestir geta sest inn á kaffihús og notið þess að fylgjast með hafnarstarfseminni og lífinu í Hafnarhólma.
Hafnarhús
Við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri stendur glæsilegt aðstöðuhús sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Borgarfjarðarhreppur ákvað því að efla til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um aðstöðubyggingu fyrir svæðið.
Tillagan sem bar sigur úr bítum kom frá Anderson & Sigurdsson arkitektum. Húsið er er látlaust og fellur vel að umherfinu en hefur samt aðdráttarafl í sjálfu sér og fangar athygli ferðamanna.
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.
Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu landslagi. Þar er að finna um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum, vinsæl tjaldsvæði og grillsvæði. Þá er þar merkilegt trjásafn með um 80 trjátegundum víðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og er skógurinn kjörinn til jurtaskoðunar og berja- og sveppatínslu.
Skógurinn sér fuglum fyrir mat, hreiðurstæði og vernd fyrir ránfuglum. Meðal algengra fugla í Hallormsstaðaskógi eru auðnutittlingur, músarrindill, glókollur, rjúpa og hrafn. Á sumrin eru þar einnig skógarþröstur, hrossagaukur og stundum sjást flækingar eins og svartþröstur, bókfinka og hringdúfa.
Hallormsstaður
Hallormsstaður er lítill þéttbýliskjarni, áður kirkjustaður og prestsetur, staðsettur í miðjum Hallormsstaðaskógi. Hallormsstaðaskógur er stærstur skóga á Íslandi og hefur skógræktarstöð verði starfrækt frá árinu 1903. Hallormsstaðaskógurinn, sem var friðaður árið 1905, geymir fjölmargar trjátegundir, sumar sjaldséðar á Íslandi og einstakt trjásafn. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu landslagi. Þar er að finna um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum, vinsæl tjaldsvæði og grillsvæði. Þá er þar merkilegt trjásafn með yfir 70 trjátegundumvíðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og er skógurinn kjörinn til jurtaskoðunar og berja- og sveppatínslu.
Hamarsrétt
Hamarsrétt, er með einstöka staðsetningu við sjóinn. Hamarsrétt er fjárrétt á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi. Réttarstæði Hamarsréttar er talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi.
Haukadalsskógur
Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi.
Heinaberg
Hólmanes
Hólmanes milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir. Hólmanes er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru. Á leið út í nesið frá Eskifirði má líta útlínur hvals sem skólabörn mynduðu í fjörunni. Auðvelt aðgengi er að bjarginu og tilvalinn staður til fuglaskoðunar. Mikilfengleg urð verður á vegi göngugarpa Reyðafjarðarmegin.
Powered by Wikiloc
Þjórsárdalsskógur
