Fara í efni

Hallormsstaður

Egilsstaðir

Hallormsstaður er lítill þéttbýliskjarni í miðjum Hallormsstaðaskógi, elsta þjóðskógi landsins. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum, göngu- og hjólaleiðum ásamt trjásafni og folfvelli. Á Hallormsstað er líka stærsta hótel Austurlands með tveimur veitingastöðum. Ísbúð með helstu nauðsynjavöru er opin yfir sumarið hjá bensínstöðinni við þjóðveginn.

Ofanvert Hérað er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Á Hallormsstað og í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu. Upplýsingar um þetta allt er að finna hér á síðunni.

Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir í Hallormsstað og sumir kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Hægt er að fara upp austan við Lagarfljót sem er styttri leiðin, 27 km. Þá er ekið fyrst eftir vegi nr. 95 og í stað þess að fara upp Skriðdal er haldið til hægri við Grímsá eftir vegi nr. 931. Hin leiðin liggur vestan við Lagarfljót (um Fell) sem er 40 km. Ef þú velur að fara upp vestanmegin beygirðu út af hringveginum á hæðinni ofan við Lagarfljótsbrú í Fellabæ. Þar er vegur nr. 931 merktur og skilti sem benda á Fljótsdal og Skriðuklaustur. Þegar þú kemur inn að Fljótsbotni beygirðu til vinstri yfir stóra brú til að fara stystu leið yfir í Hallormsstað. Einnig er hægt að keyra áfram inn dalinn og fara yfir árnar þar.