Fyrir börnin
Oddskarð
Það var ekki fyrr en árið 1949 að Norðfjörður komst fyrst í vegasamband við nágrannabyggðirnar. Leiðin lá um Oddsskarð, einn hæsta fjallveg á landinu, sem jafnan var erfiður yfirferðar vegna snjóþyngsla. Var því hafist handa við gerð jarðganga undir Oddsskarð á árunum 1974-1977. Göngin eru 626 m löng í 632 m h.y.s.
Við Oddsskarð er miðstöð vetraríþrótta. Þar er frábært skíðasvæði og skemmtilegar gönguleiðir. Þar hafa verið haldnar Týrólahátíðar um páska síðustu ár. Margháttuð fjölskylduskemmtun er í boði á skíðasvæðinu.
Sjóminjasafnið Ósvör
Safnið samanstendur af tvöfaldri 19. aldar verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli. Á meðal sýningagripa er áraskipið Ölver sem gefur góða mynd af þeim skipum sem notuð voru til fiskveiða fyrr á öldum. Safnið gefur raunhæfa mynd af aðbúnaði vertíðarfólks og þeim búnaði sem notaður var til fiskvinnslu á vetrarvertíð á 19. öld. Safnvörðurinn tekur á móti gestum, íklæddur skinnklæðum, samskonar þeim sem notuð voru við sjósókn í Bolungarvík og lýsir því sem fyrir augu ber. Safnið stendur við Óshlíðaveg austast í víkinni.
Frekari upplýsingar um safnið má finna hér.
Reykjarfjörður í Arnarfirði
Rétt við þjóðvegin í Reykjafirði er útisundlaug sem í rennur allt árið í kring. Aðstaða er til fataskipta,
en rétt fyrir ofan laugina sjálfa, er líti hlaðin setlaug af náttúrunnar hendi. Þar er yndislegt að slaka á og horfa yfir Arnarfjörðinn, en best er að láta vita að laugin getur orðið dálítið heit. Aðgangur er ókeypis.
Raggagarður
Upphaf fjölskyldugarðsins.
Frumkvöðull að þessum garði er formaður og framkvæmdastjóri áhuga-mannafélagsins um garðinn, Vilborg Arnarsdóttir ( Bogga ) í Súðavík.
Hún hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum, að reisa sumarleiksvæði sem ætlað væri til að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur á norðanverðum Vestfjörðum.
Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum á svæðinu og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á svæðinu. Bogga kannaði áhuga heimamanna á þessu verkefni og kom í ljós að heimamenn, sumarhúsaeigendur og aðrir aðilar höfðu mikinn áhuga á verkefninu. Í framhaldinu var sótt um lóð fyrir fjölskyldugarðinn til hreppsnefndar Súðavíkur.
Hugsjónin varðandi garðinn og minningin.
Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, 19. ágúst 2001.
Það er hennar vilji að minningin um drenginn hennar verði til þess að fjölskyldugarður rísi á Vestfjörðum og skapi þannig fleiri tækifæri fyrir foreldra og börn til að eiga ánægjulegar stundir saman. Minningin um ungan dreng sem ekki fékk tækifæri til að lifa og verða fullorðinn maður.
Garðurinn á að vera vettvangur til að eiga ánægjulega stund með börnum okkar og barnabörnum, þar sem fjölskyldan getur glaðst saman. Garðurinn er ætlaður sem góður og gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu.
Nánari upplýsingar á www.raggagardur.is
Pottarnir á Drangsnesi
Ófáir Strandamenn hafa dregið sig saman í pottunum á Drangsnesi, enda hefur þar löngum verið samkomustaður ungs fólks á öllum aldri. Pottarnir þrír eru fyrir neðan veg nálægt sjónum og eru þeir mjög vel sýnilegir frá þorpinu og veginum. Vinsældir pottanna virðast síst hafa minnkað síðustu misseri þó fyrirtaks sundlaug hafi verið reist í plássinu ekki fyrir svo löngu síðan.
Aðgangseyrir: frjáls framlög.
Óshlíð
Óshlíð nefninst hlíðin á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Hlíðin er snarbrött og var erfið yfirferðar áður en vegur var lagður þar í krigum árið 1950. Um Óshlíð var eini akvegurinn til Bolungarvíkur en í dag hafa Bolungarvíkurgöng leyst veginn af hólmi. Göngin voru opnuð árið 2010 og síðan þá hefur Óshlíðin verið mikið notuð sem útivistarsvæði. Malbikaður vegurinn býður upp á æðislega hjólaleið, sem og hlaupaleið sem fær er allt sumarið. Vegfarendur eru þó beðnir um að sýna aðgát því mikið grjóthrun er úr hlíðinni fyrir ofan og eins hefur vegurinn látið á sjá vegna ágangs sjávar. Óshlíðin er sérstaklega skemmtilegur áfangastaður á björtum sumarkvöldum því sólsetrið sést hvergi betur en frá Óshlíð og Óshólum. Sett hafa verið upp örnefnaskilti við Skarfasker og þar er fullkomið að setjast niður og fá sér kaffisopa.
Taka skal sérstaklega fram að ekki er ætlast til þess að Óshlíðin sé keyrð, en verði akstur fyrir valinu þá eru ökumenn og farþegar í ökutæki þeirra ótryggðir og alfarið á eigin vegum.
Mjóeyri
Mjóeyri er einstaklega fallegur staður utan við þorpið í Eskifirði. Þar eru viti og fjara þar sem skemmtilegt er að leika sér.
Mjóeyri var síðasti aftökustaðurinn á Austurlandi og þar er að finna upplýsingaskilti á dys síðasta mannsins sem tekinn var af lífi á staðnum.
Á Mjóeyri er í dag rekin blómleg ferðaþjónusta þar sem meðal annars er hægt að fá leiðsögn um svæðið.
Skálavík
Skálavík er næsta vík vestan við Bolungarvík en þar var byggð allt til fimmta áratugar síðustu aldar. Núna er sumarbústaðaland í víkinni og oft mikið fjör. Á góðum sumardögum þá safnast fullt af fólki saman á stöndinni og ef vel er heitt þá er stundum hoppað í Hylinn í Langá. Skálavík er paradís fyrir börn og algjörlega upplagt að stoppa þar og leika. Á leiðinni til baka er fullkomið tækifæri að kíkja upp á Bolafjall og kíkja aðeins á útsýnið.
Lónið
Lónið fyrir innan Suðureyri hefur frábæra möguleika á því að komast nær náttúrunni. Bæði er fuglalíf þar í blóma en einnig eru fiskar í lóninu. Við mælum með því að hafa samband við Fisherman á Suðureyri og fá að kaupa fisk til þess að gefa fiskunum í Lóninu. Það má einnig ræða það við Fisherman hvort möguleiki sé á því að veiða fiskana í Lóninu.
Laugar í Sælingsdal
Lagarfljótsormurinn
Kletturinn Kerling
Kletturinn kerling er mjög skemmtilegt viðfangsefni. Sagan segir að kerling sú er stendur þarna sé í raun tröllkerling sem átti stóran þátt í því að landræman sem tengir Vestfirði við Ísland er svo stutt á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kerling þessi, ásamt tveimur öðrum tröllum ákváðu eitt sinn í sameiningu að gera Vestfirði að eyju. Hófust þau handa við gröftinn, tvö þeirra að vestanverðu en eitt að austanverðu. Gröfturinn gekk vel og landræman styttist í hverri skóflustungunni. Þegar líða tók að dögun og ekki var búið að moka alla landræmuna þá ákváðu tröllin að forða sér áður en sólin kæmi. Litu þau fyrst yfir firðina í innanverðum Breiðafirði að vestanverðu, sem voru orðnir fullir af eyjum en horfðu síðan yfir Húnaflóann að austanverðu og sáu að engin einasta eyja hefði myndast. Tröllunum sinnaðist við þetta og hlupu því hvort í sína áttina. Kerling á Drangsnesi er sú er gróf að austanverðu en hin tvö tröllin má sjá steingerð á harðahlaupum út eftir Kollafirði. Kerlingu á Drangsnesi líkaði ekki að engin eyja hafði myndast við gröft sinn svo hún lagði allan kraft í það rétt í dögun að mynda eina slíka fyrir utan Drangsnes. Það ku vera eyjan Grímsey í dag.
Ketildalir og Selárdalur
Ketildalir er röð af stuttum dölum á suðurströnd Arnarfjarðar, frá Kópsnesi inn að Bíldudalsvogi. Þverhníptir fjallgarðar mynda dalina, umkringdir klettabeltum efst og niður af þeim falla snarbrattar skriður og víða teygja fjöllin sig þverbrotin í sjó fram.
Víða má finna surtarbrand og plöntusteingervinga í berglögum.
Selárdalur er einna vinsælasti áfangastaðurinn á þessum slóðum en þar er glæsilegt útsýni yfir Arnarfjörð og hægt að sjá hinn 1000 metra háa Kaldbak, hæsta fjall Vestfjarða. Í Selárdal leynist listasafn Samúels Jónssonar(1884-1969) sem var oft kallaður “listamaðurinn með barnshjartað”. Hann byggði bæði hús og reistu kirkju þar sem sjá má bæði málverk og styttur eftir listamanninn. Allt frá 1998 hefur félag um endurreisn safnsins stuðlað að viðhaldi á listaverkum og byggingum Samúels.
Keldur á Rangárvöllum
Keldur eru fornt höfuðbýli þar sem höfðingi Oddaverja, Jón Loftsson, bjó sín síðustu æviár. Á Keldum var jafnframt kaþólskt klaustur í eina tíð. Þar er að finna torfbæ af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem hefur varðveist á Suðurlandi. Úr skálanum liggja jarðgöng sem talin eru vera frá 12. eða 13. öld og hafa vafalítið verið notuð sem undankomuleið á ófriðartímum.
Þó svo að kjarni húsanna sé frá 19. Öld þá er elsti hluti bæjarhússins elsti verðveitti hluti torfbæjar á Íslandi. Fjöldi útihúsa hafa einnig varðveist á bænum. Þar er jafnframt kirkja sem byggð var af Guðmundi Brynjólfssyni, hreppstjóra, árið 1875.
Kirkjan er úr timbri og járnvarin. Predikunarstóll, altari og ljósaarmar voru smíðaðir af Hirti Oddssyni, snikkara og bónda í Eystri-Kirkjubæ. Altaristaflan sýnir hina heilögu kvöldmáltíð og er eftir Ámunda Jónsson, snikkara í Syðra-Langholti. Viðgerðir fóru fram á kirkjunni á árunum 1956-1957. Gréta og Jón Björnsson sáu þá um að skreyta og mála kirkjuna líkt og þau gerði við Oddakirkju.
Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu.
Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.
Skallagrímsgarður í Borgarnesi
Skessan í hellinum
Skessan flutti úr fjallinu sínu til Reykjanesbæjar á Ljósanótt 2008 og hefur nú aðsetur í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf. Þar hefur skessan búið sér notalegan helli með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann.
Skessan er höfundaverk Herdísar Egilsdóttur sem skrifað hefur 16 sögur um Siggu og skessuna í fjallinu en sú nýjasta fjallar einmitt um flutninginn til Suðurnesja.
Hönnun hellisins, framkvæmd og gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðanbáls en við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu.
Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu.
Opnunartími: Alla daga frá kl. 10:00 -17:00 (nema ef veður hamlar opnun yfir vetrartímann t.d. vegna ófærðar að helli).
Frekari upplýsingar eru veittar í Duushúsum, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar í síma 420-3245. Einnig er hægt að senda póst á netfangið duushus@reykjanesbaer.is.
Hægt er að senda skessunni bréf á netfangið skessan@reykjanesbaer.is.
Nánar um Skessuna á www.skessan.is
Atlavík
Atlavík í Hallormsstaðaskógi var á árum áður vinsæll samkomustaður Austfirðinga og annarra, sérstaklega á meðan hinar frægu Atlavíkurhátíðir voru haldnar. Í Atlavík er rómantískt, friðsælt og skjólgott tjaldsvæði með góðri aðstöðu. Ekkert rafmagn er á tjaldsvæðinu svo þeir sem það kjósa geta til dæmis hreiðrað um sig í Höfðavík þar skammt frá. Veðursældin í Atlavík er engu lík og kjörið að njóta útivistar þar og annars staðar í skóginum. Hann er enda vinsælt útivistarsvæði með um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum. Þá er þar merkilegt trjásafn með yfir 70 trjátegundumvíðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og á heitum degi er hægt að busla í lignu Lagarfljótinu.
Hallormsstaðaskógur sjálfur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.
Timburhóll - Skógrækt
Skógræktarreitur Ungmennafélagsins Samhygðar. Grillaðstaða og gróskumikill skógur. Hér er minnisvarði um hjónin í Vorsabæ, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Stefán Jasonarson. Þau hjónin voru bændur í Vorsabæ í hálfa öld og Stefán var frumherji í störfum fyrir samtök sunnlenskra bænda, ungmennafélagshreyfinguna, umferðaröryggi og varðveislu þjóðlegra verðmæta. Auk þess er hér minnismerki um Ásgrím Jónsson listmálara. Gestir eru beðnir um að ganga vel um.
Þjórsárdalsskógur
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull á Snæfellsnesi
Víkingasvæðið Þingeyri
S: 863-2412
thorir@simnet.is
Gísla saga Súrssonar spannar stórt svæði af fjörðunum og þar er sögustöðunum lýst af kunnáttu og nákvæmni. Allt fram á 20. öldina voru atvinnuhættir á þessum slóðum hinir sömu og voru á dögum Gísla Súrssonar. Þegar svo tækni nútímans hóf innreið sína á Vestfirði, voru sumir staðir þegar komnir í eyði. Þess vegna líta ýmsir sögustaðanna nánast eins út og þeir gerðu á meðan Gísli Súrsson gekk þar um.
Vegna hinnar ósnortnu náttúru sem þú getur svo víða notið á Vestfjörðum, hefur þú tækifæri til að komast í snertingu við söguþrungna fortíð svæðisins. Á Þingeyri er búið að byggja upp Víkingasvæði með útivistarsvæði sem saman stendur af sviði, bekkjum og borðum og grillaðstöðu og er aðstaðan mynduð úr hringhleðslu úr grjóti. Þá er tilvalið að fara með hópinn í siglingu með Víkingaskipinu Vésteini.
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli.
Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871.
Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Veðurhorfur -112 orð yfir vind og veðurbrigði
Á íslensku má finna yfir 130 orð yfir vind. Sólrún Halldórsdóttir listamaður hefur hér valið 112 orð með tilvísun í neyðarnúmer á Íslandi. Íslendingar eru margir hverjir háðir veðri í sínum daglegu störfum og varla líður sá dagur að veðrið berist ekki í tal manna á milli.
Orðunum er raðað upp eftir vindhraða og stuðst við veðurkóda Veðurstofu Íslands, nema hér eru litatónarnir mun fleiri. Oft ræður tilfinning hvar orðið lendir, en einnig er stuðst við frásagnir eldra fólks.
Sólrún Halldórsdóttir er fædd árið 1964 og uppalin í Grundarfirði, næst yngst hjónanna Halldórs Finnssonar og Pálínu Gísladóttur. Mikið var lesið á heimilinu, móðirin rak bókabúð hér í Grundarfirði og snemma fékk Sólrún mikla ást á íslenskri tungu.
Verkið er 18 metra langt og 60 cm breitt. Efniviður er grjót, stál og harðviður.
Sæunnarhaugur
Kýrin Sæunn er sá gripur sem flestir munu hafa heyrt um úr bústofni Kirkjubóls. Sæunn synti yfir þveran Önundarfjörð og bjargaði þannig lífi sínu einn kaldan októberdag árið 1987. Hún lifði í sex ár eftir það í góðu yfirlæti á Kirkjubóli en var þá felld og heygð í sjávarkambinn þar sem hana bar að landi forðum og heitir þar Sæunnarhaugur.
Sundafrek Sæunnar eða Hörpu eins og hún hét fyrir sundið mikla komst í fréttir bæði hérlendis og erlendis enda fátítt að kýr leggist til sunds hvað þá svona langa leið.
Skíðasvæðið í Stafdal
Stafdalur er skíðasvæði Seyðfirðinga og er staðsett við þjóðveg nr. 93 milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Á svæðinu eru 3 skíðalyftur og aðstaða fyrir alls konar skíðafólk.
Byrjendalyftan er kaðallyfta sem er um 100 metra long. Neðri lyftan er diskalyfta um 900 metra löng og hefur 190 metra hæðarmismun en efri lyftan er diskalyfta um 700 metra löng og hefur 160 metra hæðarmismun.
Stafdalur hefur mjög skemmtilega gönguskíðabraut sem er um 5 km og er hún ávallt troðin þegar tími vinnst til.
Skíða- og snjóbrettaleiga er á svæðinu og skáli sem er opinn fyrir alla gesti.
Surtarbrandsnáma
Í Syðridal, inn af Bolungarvík, er staðsett gömul surtarbrandsnáma. Surtarbrandur var numinn úr námunni á árunum 1917-1921, eða um og fram yfir fyrri heimstyrjöld. Ástæðan fyrir því að hætt var að vinna surtarbrand í námunni er vegna þess hversu ósamkeppnishæfur surtarbrandur er gagnvart brún- eða steinkolum sem tiltölulega auðvelt var að nálgast frá Evrópu eftir stríð. Surtarbrandurinn inniheldur um 60% kolefni en brún og steinkol á milli 70 og 80%. Námurnar í syðridal eru í raun tvær, Gilsnáma og Hanhólsnáma og eru þær eru sitt hvoru megin Gilsár. Gilsnáma, sem oft er talað um sem hina eiginlegu surtarbrandsnámu er rúmlega hundrað metra langur hellir þar sem enn má sjá tæki og tól sem notuð voru við námuvinnsluna. Hanhólsnáman hinsvegar er handan árinnar og stikla þarf yfir ána til þess að komast að henni. Hún er mun styttri eða um 5-10 metra löng og surtarbrandurinn auðséður. Opið inn í Gilsnámuna er mjög þröngt, en um leið og komið er inn er mikil lofthæð og vel hægt að standa uppréttur. Gangan upp að námunni tekur um 20-25 mínútur eftir stikaðri gönguleið og vel þess virði að kíkja á hana.
Sundlaugin í Laugarnesi Barðaströnd
Sundlaugin í Laugarnesi við Birkimel á Barðaströnd er fallega staðsett lítil sundlaug með glæsilegu útsýni yfir Breiðafjörð. Bæði er hægt að svamla um í steyptri sundlaug sem og að liggja út af í minni náttúrulaug neðand við þá stóru.
Það er Ungmennafélag Barðastrandar sem á og rekur laugina.
Skrúður
Skógræktin í Skagaási
Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Skjólsæll unaðsreitur með ágætu aðgengi. Fólk er vinsamlegast beðið um að virða gönguleiðir og ganga vel um. Einungis er leyfilegt að grilla á merktum grillstað vegna eldhættu.
Kálfanesborgir
Þegar gengið er upp á Kálfanesborgir er gengið frá tjaldsvæðinu upp að Háborgarvörðu. Frá vörðunni er útsýnið yfir Steingrímsfjörðinn stórfenglegt og tilvalið að stoppa þar til þess að taka myndir og jafnvel hvíla sig aðeins. Þegar gengið er niður er gengið í átt að sjónum þangað til komið er að gamla þjóðveginum. Hann leiðir ykkur inn í þorpið aftur.
Illugastaðir
Illugastaðir, er frægur selaskoðunar- og sögustaður. Á Illugastöðum á vestanverðu Vatnsnesi hefur verið byggður upp góður selaskoðunastaður. Gott bílaplan er á staðnum og þjónustuhús með salernisaðstöðu. Lagðar hafa verið lagðar gönguleiðir með sjónum. Á skerjum fyrir utan og syndandi í sjónum má flesta daga ársins sjá fjölmarga seli. Einnig hefur verið reist selaskoðunarhús út í tanga. Þar eru upplýsingar um selina og góð aðstaða til að fylgjast með selunum á sundi og liggjandi í skerjum. Athugið! Vegna mikils æðarvarps sem er á Illugastöðum þá er selaskoðunasvæðið lokað frá 30. apríl til 20. júní ár hvert[6].
Morðin á Illugastöðum.
Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.[7]
Húsafell í Borgarfirði
Flatey á Breiðafirði
Fjaðrárgljúfur
Einbúi, Oddgeirshólar
Einbúi, Oddgerishólar er tilkomumikið landslag á bökkum Hvítár. Þetta er útivistarsvæði í Oddgeirshólaklettum sem Guðmundur Sigurðsson í Austurkoti gaf Ungmennafélaginu Baldri árið 1931. Ungmennafélagar hafa unnið af kappi við að gera svæðið að fallegu íþrótta- og útivistarsvæði, m.a. með hleðslu palla og gróðursetningu skjólbelta.
Eiðar
Eiðar voru stórbýli til forna, höfðingjasetur og kirkjustaður. Eiða er raunar fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197. Samkvæmt samkomulagi Þorláks helga 1179 við eigendur kirkjustaða á Austurlandi var kirkjan á Eiðum bændakirkja og átti Eiðajörð að hálfu á móti staðarbónda.
Þessi kirkjuskipan á Eiðum hélst allt til 1882 er Múlasýslur keyptu Eiðastól og þar var stofnaður búnaðarskóli sem tók við hlutverki Eiðabónda um forræði kirkjunnar. Árið 1883 var stofnaður þar bændaskóli en honum var svo breytt í héraðsskóla -Alþýðuskólann á Eiðum - árið 1918 sem starfaði sleitulaust en þó með breytingum í áranna rás allt til 1995 þegar hann var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allt frá lokun skólans hafa verið uppi ýmis áform um að finna þessum sögufræga stað nýtt og verðugt hlutverk.
Kirkjumiðstöð Austurlands rekur vinsælar sumarbúðir fyrir börn við Eiðavatn og ferðaþjónusta er vaxandi á staðnum en þar er rekið gistihús og tjaldsvæði auk ýmissa afþreyingarmöguleika.
Eggin í Gleðivík
Efra-Hvolshellar
Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943.
Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands. Ekki er talin hætta af frekara hruni en þó skyldi fólk sýna aðgát. Hellarnir hafa verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar.
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
Dvergasteinn
Dvergasteinninn stendur í flæðamálinu neðan við samnefnda jörð á norðurströnd Seyðisfjarðar er fyrrum var kirkjustaður. Til er þekkt þjóðsaga um ferðalag Dvergasteins á eftir kirkjunni, þegar hún var flutt frá suðurströndinni norður yfir fjörðinn. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið. Hann er auðfundinn og aðgengi gott.
Búðir á Snæfellsnesi
Búðará
Búðará rennur þvert í gegnum byggðina á Reyðarfirði. Í miðbæ Reyðarfjarðar er að finna upphaf fallegrar gönguleiðar sem að liggur meðfram ánni í gegnum skógi vöxnum árbökkunum. Þegar komið er að Stríðsárasafninu er hægt að velja hvort gengið er eftir skógi vöxnum hálsinum austur af Stríðsárasafninu eða upp að Búðarárfossi.
Bustarfell
Á Bustarfelli í Vopnafirði stendur einn
stærsti og best varðveitti torfbær landsins. Hann hýsir nú Minjasafnið á
Bustarfelli. Bærinn er að stofni til mjög gamall, að hluta frá því að hann var
endurbyggður eftir bæjarbruna 1770, en í honum var búið til ársins 1966. Sýningin
í safninu spannar því tveggja alda sögu búskapar- og lifnaðarhátta.
Methúsalem Methúsalemsson, bóndi á
Bustarfelli, seldi ríkinu bæinn árið 1943 með því skilyrði að hann yrði byggður
upp og varðveittur um ókomin ár. Bærinn hefur verið í umsjá Þjóðminjasafnsins
síðan. Fyrst um sinn var safnið einkasafn, en árið 1982 afhenti Elín
Methúsalemsdóttir, dóttir Methúsalems og síðasti ábúandi í gamla bænum, Vopnfirðingum
safnkostinn til varðveislu og varð safnið þá að sjálfseignarstofnun.
Sérstaða Bustarfellsbæjarins er að það var
búið í honum óvenju lengi og fastasýning safnsins endurspeglar bæinn sem
heimili fjölskyldunnar, sem flutti þaðan árið 1966. Auk þess eru að jafnaði
tvær til þrjár sérsýningar í safninu.
Safnið er opið yfir sumarið og ofan við gamla
bæinn stendur kaffihúsið Hjáleigan, þar sem má gæða sér á kaffi og kræsingum. Á
staðnum er einnig lítið dýragerði með húsdýrum, sem gleðja jafnan stóra sem
smáa.
Brúnavík
Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar eystri og er hluti gönguleiðakerfisins um Víknaslóðir. Gönguleiðin er alls um 12 km, þægileg og fögur dagleið. Gengið er frá bílastæði við Hafnarhólma og um Brúnavíkurskarð (360 m) austan Geitfells. Nokkuð bratt er niður að bæjarstæðinu og þarf að vaða eða stikla Víkurána ef farið er út á sandinn. Áin er oftast greiðfær niðri við sjó og vel þess virði að ganga niður í fjöru því hún er einstaklega litfögur. Til baka er gengið inn víkina, hvoru megin ár sem óskað er, inn að Brotagili en þar skammt frá er göngubrú yfir ána. Frá Brotagili er genginn vegslóði yfir Hofstrandarskarð (320 m). Gangan tekur um 5-6 klst. eftir vörðuðum leiðum og vegslóða.
Borgarnes gönguleið
Gönguleið sem býður upp á fjölbreytta upplifun gesta þar sem tignarlegt Hafnarfjall býður gesti velkomna, Snæfellsjökull stendur í fjarska, meðfram strandlengjunni liggur Hvítá, hinu megin við Borgarvoginn sést yfir á Borg á Mýrum og finna má fjölmarga áningastaði þar sem upplifa má kyrrð og ró.
Borgarnes er stærsti þéttbýliskjarni í Borgarfirði eða með um 3.800 íbúa. Borgarnes er þekktur áningastaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn en keyra þarf í gegnum Borgarnes og er þar að finna mikla þjónustu, hvort sem það er í formi gistingar, veitinga eða afþreyingu. Borgarnes er í alfaraleið en farið er í gegnum bæinn til að komast vestur á Snæfellsnes, keyra suður til Reykjavíkur eða Norður til Akureyrar.
Hægt er að finna fjölmargar gönguleiðir í Borgarnesi. Nýjir göngustígar með aðgengi fyrir vagna og hjólastóla er þar á meðal en einnig eru stígar sem leynast víða inn á milli íbúðarhverfa Borgarness, sem eru með mismunandi undirlag, hönnun og aðgengi. Áningastaði er víða að finna, upplýsingaskilti um lífríki Borgarvogs og upplýsingaskilti um sögu Borgarness. Tenging við tjaldsvæði, íþróttasvæði og þjónustusvæði er á gönguleið en hafa þar í huga að ganga þarf yfir þjóðveg nr. 1 á gönguleið en engin undirgöng eða brú er að finna fyrir útivistarfólk. Skallagrímsgarður, Vigdísarlaut, Granastaðir, Vestur-nes, Suður-nes, Mið-nes, Bjössaróló, Hlíðartúnshús, Hjálmaklettur eru allt skemmtileg svæði sem tengjast gönguleið um Borgarnes.
Staðsetning: Borgarnes, Borgarbyggð
Heimilisfang byrjunarreits: Brákarbraut 15, Borgarnes
Erfiðleikastig: Auðvelt
Lengd: 9.89km
Hækkun: 50-100 metrar
Merkingar: Engar merkingar
Tímalengd: 2 klst.
Tegund gangstígar: Möl og smásteinar
Fyrirstöður á leið: Nokkur smá þrep eru á leiðinni
Þjónusta á svæðinu: Þjónustu má finna víða á leiðinni og á tjaldsvæðinu á Granastöðum og Upplýsingamiðstöð Borgarbyggðar í Ljómalind.
Lýsing: Hluti leiðarinnar er upplýstur
Árstíð: Gönguleiðin er aðgengileg og fær allan ársins hring
GPS hnit upphafspunktar: N64°53523 W021°923
GPS hnit endapunktar: N64°53523 W021°923
Bjössaróló í Borgarnesi
Álfaborg
Garðar BA
Hálsaskógur
Hálsaskógur er á Búlandsnesi, skammt vestan við Djúpavog. Skógurinn er afar skemmtilegur en hann hefur verið grisjaður og þar settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Í skógræktinni eru kurli lagðir göngustígar og svæðið hentar því einkar vel fyrir þá sem kjósa léttar gönguferðir.
Heydalur
Heiti potturinn í Heydal er náttúrulaug í stuttu göngufæri frá Sveitahótelinu í Heydal. Gott er að enda ánæjulegan dag með því að finna þreytuna líða úr sér í þessum náttúrupotti sem sumir segja færi gestum kraft.
Hér á eftir er úrdráttur úr viðtali við Stellu Guðmundsdóttir gestgjafa í Heydal sem birtist í ferðablaði Markaðsstofu Vestfjarða vorið 2008.
Gestum finnst forvitnilegt að gista í fjósi og borða í gamalli hlöðu, segir Stella Guðmundsdóttir, gestgjafi í Heydal. Hún rekur þar ásamt fjölskyldu sinni fjölþætta ferðaþjónustu. Sumarið leggst afar vel í okkur. Pantanir lofa góðu og það verður nóg um að vera í allt sumar, Í Heydal er meðal annars boðið upp á gistingu, tjaldsvæði, veitingar, kajakróður og hestaferðir. Dalurinn er algjör perla. Ef gengið Er meðfram ánni inn dalinn sem er kjarri vaxinn má sjá nokkur gil og í innsta gilinu eru margir litlir fossar. Einnig er gaman að ganga upp á fjöllin og yfir í næstu firði. Góð aukning var á tjaldsvæðinu á síðasta sumri. Við höfum gert mikið fyrir svæðið, gróðursett tré, komið fyrir leiktækjum og sett upp salerni og heitar sturtur. Svo er það að sjálfsögðu heita náttúrulaugin sem er alltaf vinsæl enda talið að Guðmundur góði hafi vígt hana og á hún að vera hin mesta heilsulind.
Fuglaskoðun og gæðamál
Við höfum alla tíð lagt áherslu á vöruþróun og gæðamál. Í ár verða nokkur skref stigin í þá veru. 2007 fengum við styrk frá Ferðamálaráði til að gera upplýsingaspjöld um þá fugla sem sjá má í Heydal og nágrenni. Í tengslum við það höfum við keypt sjónauka og unnið þannig að því að fjölga ferðamönnum sem koma til okkar gagngert til að skoða fugla, sem og að benda almennum ferðamönnum á þann fjársjóð sem í fuglunum felst. Spjöldin voru vígð í Júní sl. sumar og af því tilefni var ýmislegt við að vera, svo sem samkeppni um bestu fuglavísuna, skemmtilegustu fuglamyndina og fleira, segir Stella. Gæðamálin skipa ekki síðri sess. Við erum í verkefni Félags ferðaþjónustubænda og Ferðaþjónustu bænda sem heitir Gerum góða gistingu betri. Þá verðum við líklega fyrst vestfirskra ferðaþjónustufyrirtækja til að fá Green Globe vottun sem vistvæn ferðaþjónusta, en það ferli er nú á lokastigi, segir Stella að lokum.
Hellulaug
Hellulaug er náttúrulaug rétt svo spölkorn frá þjóðveginum í Vatnsfirði rétt áður en komið er að Flókalundi. Hitastigð í Helluaug er 38° og hún um 60cm djúp með frábæru útsýni yfir fjörðinn. Laugin sést ekki frá veginum, en það er bílastæði til staðar ásamt stíg sem liggur niður að lauginni.
Hella
Hella er stærsti byggðarkjarni sveitarfélagsins með rúmlega 800 íbúa. Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, dýralæknamiðstöð, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað.
Á Hellu er einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, raftækja- og gjafavöruverslun, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk ýmiskonar annarrar þjónustu og stofnanir. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu.
Saga þéttbýlisins nær aftur til ársins 1927 þegar þar var rekin verslun sem óx jafnt og þétt með uppbyggingu Kaupfélagsins Þórs og varð staðurinn helsti kaupstaður vesturhluta Rangárvallasýslu. Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum.
Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári.
Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin fimm landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014 og ráðgert að það sjötta fari fram þar árið 2021.
Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.
Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar.
Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott.
Helgafell á Snæfellsnesi
Haukadalsskógur
Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi.
Hamarsrétt
Hamarsrétt, er með einstöka staðsetningu við sjóinn. Hamarsrétt er fjárrétt á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi. Réttarstæði Hamarsréttar er talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi.
Hallskot - Skógræktarfélag Eyrarbakka
Stórbrotið útivistarsvæði norðan við Eyrarbakka í átt að Fuglafriðlandinu í Flóa. Hallskot hefur verið í umsjá Skógræktarfélags Eyrarbakka frá 2015.
Hallskot bíður uppá ótal möguleika og eru reglulega haldnir viðburðir, bæði úti og í bragganum. Svæðið er kjörið til að nýta sem áningarstað, skjólsælt með bekkjum og borðum.
HEIMILISFANG: 820 EYRARBAKKI / SÍMI: (+354) 660 6130, (+354) 847 5028
SKOGRAEKTARFELAGEYRARBAKKA@GMAIL.COM
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.
Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu landslagi. Þar er að finna um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum, vinsæl tjaldsvæði og grillsvæði. Þá er þar merkilegt trjásafn með um 80 trjátegundum víðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og er skógurinn kjörinn til jurtaskoðunar og berja- og sveppatínslu.
Skógurinn sér fuglum fyrir mat, hreiðurstæði og vernd fyrir ránfuglum. Meðal algengra fugla í Hallormsstaðaskógi eru auðnutittlingur, músarrindill, glókollur, rjúpa og hrafn. Á sumrin eru þar einnig skógarþröstur, hrossagaukur og stundum sjást flækingar eins og svartþröstur, bókfinka og hringdúfa.
Gullfoss
Gluggafoss
Þórsmörk

