Fara í efni

Sandvík - Grindavík - Fuglaskoðun

Sandvík - Grindavík

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík er flöt og falleg vík með stórum sandöldum og miklu lóni sem fuglar sækja mikið í. Erfitt getur reynst að komast í færi við fuglana, því er gott að vera með góðan sjónauka á fæti til að skoða þá. Skúfendur, stokkendur, rauðhöfðar, urtendur og álftir eru reglulegir gestir við lónið. Í gegnum tíðina hafa sést margir flækingar enda er lónið ein af fáum vatnsvinjum á þessu svæði. Malarvegurinn við lónið og upp á sandölduna er holóttur en ætti að vera fær flestum bílum. Ekki er mælt með því að keyra niður í víkina þar sem auðvelt er að festa bíl þar og flóðastaðan er fljót að breytast.

Reykjanes – Eldey, Valahnjúkur og Karl

Reykjanesið er ysta og vestasta nesið á Reykjanesskaga sem dregur nafn sitt af þessu nesi. Þar er líklega eina kríuvarpið í heiminum staðsett á hverasvæði. Í flestum tjörnum á svæðinu gætir sjávarfalla og einstök lífkerfi þrífast í þeim tjörnum. Vaðfuglar sækja í þessar tjarnir í leit að æti og skjóli. Frábærar aðstæður eru til sjófuglaskoðunar á svæðinu enda eru rík fiskimið á Reykjaneshryggnum nálægt landi. Hægt er að keyra að Reykjanesvita og niður að Valahnjúk. Þar er hægt að ganga upp að bjargsbrún og fylgjast með verpandi ritum og fýlum í klettaveggjunum. Rétt utar sést Karlinn standa í sjónum en þar verpa ritur, fýlar og stöku álkur. Þegar horft er út á hafið stendur Eldey tignarleg upp úr hafinu. Eldey er stærsta súlnabyggð á Íslandi með um 14-18.000 pör en aðrar varptegundir eru ritur, langvíur, stuttnefjur og fýlar.

Víkur

Þegar ekið er stuttan spöl frá Reykjanesvita í átt að Grindavík eftir malarvegi niður í Mölvík að gömlum niðurrifnum húsum á hægri hönd. Ef honum er fylgt út að enda og gengið niður að sjó má oft sjá stóra hópa æðarfugla. Í þeim leynast oft hrafnsendur, korpendur, kolendur og æðarkóngar.

Arfadalsvík

Affall fiskeldisins á Stað lokkar til sín marga máfa, andfugla og jafnvel vaðfugla sem sækja í næringarríkt setið. Nokkrar litlar víkur eru á svæðinu og í sumum þeirra safnast upprekið þang sem dregur til sín vaðfugla í fæðuleit. Arfadalsvík er langstærst þessara víka og er einstaklega lífrík. Gott skjól er í víkinni miðað við mikla og ríkjandi austlæga strauma. Fyrir vikið er botndýralíf mikið og fuglalíf endurspeglar það. Að vetri er hægt að ganga að 5-15 straumöndum vísum við gamla bryggju innst í víkinni. Himbrimar eru stutt frá landi í ætisleit, tugir og upp í hundruð stokk- og rauðhöfðaanda er að finna í sjávarpollum og tjörnum uppi í landi alla leið að Stórubót. Margir flækingar og þar af sumir sárasjaldgæfir hafa fundist í Arfadalsvík.

Grindavík

Fyrir flækingsfuglaskoðara er Grindavík frábær staður. Vel upplýstur bærinn á suð-vestanverðu landinu dregur að sér flækinga bæði frá Evrópu og Ameríku. Höfnin í Grindavík er líka mjög góður staður fyrir flækingsmáfa og aðra sjófugla. Himbrimar í vetrarbúningi svamla um í höfninni ásamt teistum og skörfum meðan máfar hafa setstað innst í höfninni. Nokkrir góðir fuglaskoðunarstaðir eru úti á Hópsnesi. Fjörupollar eru sunnan við Höfnina í Grindavík en austan við Hópsnes er þaraskógur við Þórkötlustaðabót sem dregur að sér endur, brúsa og sjófugla.