Fjörur
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.
Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi.
Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó.
Ingjaldssandur
Ingjaldssandur er stór dalur á milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Áður átti margt fólk heima á Ingjaldssandi en núna eru íbúarnir eingöngu tveir. Vegurinn yfir Sandsheiði er nógu góð ástæða til þess að keyra yfir á sand þar sem útsýnið frá heiðinni er stórkostlegt. Á Ingjaldssandi er félagsheimilið Vonarland og lítil kirkja með óvenjulegan keltneskan kross á toppnum. Ströndin og sandurinn er einnig heillandi.
Kollsvík
Lambanes
Malarvegur nr. 869 leiðir þig á Langanesið. Nálægt bænum Ytra-Lóni er falleg fjara, ein fárra fjara á Íslandi sem er ekki með svörtum sand. Hér gefst gott tækifæri til að fylgjast með ríku fuglalífi svæðisins og er lítið fuglahús í nágrenninu. Ekki missa af því að ganga þessa fallegu strönd.
Lambanes er aðgengilegt á sumrin.
Ljósastapi
Skjólfjörur er staður sem ekki ætti að missa af ef leiðin liggur um Vopnafjörð. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlandshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunar. Litadýrð fjörusteinanna gleður augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þann kraft sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni.
Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er glæsilegur klettur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara og heima menn kalla „Fílinn“ vegna þess hvernig lögun klettarins minnir á fíl. Ljósastapi er einstaklega myndrænn og er vel þess virði að stoppa til þess að taka skemmtilegar myndir.
Til hægri við „Fílinn“ má sjá Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og þar er elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallgarði má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Múlahöfn og að Þerribjargi, austan megin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta.
Rauðasandur
Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.
Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri.
Við mælum einnig með því að stoppa á kaffihúsinu!
Ánastaðastapi
Skilti merkt Ánastaðastapi við veg nr.711 sýnir hver bílastæðið er. Notið stigann til að fara yfir girðinguna og gangið stuttan spöl niður hlíðina, meðfram litlum læk og niður á strönd. Hér finnur þú fallegan sjóklett, Ánastaðastapa. Vinsamlegast athugið að þessi staður er lokaður fram í júlí vegna sauðburðar.
Ströndin Ölfusi - Skötubót
Fjaran austan við byggðina í Þorlákshöfn er í daglegu tali nefnd Skötubót. Skötubótin er skemmtilegur staður fyrir útivist, ungir sem aldnir njóta þess að ganga og leika sér í þessari fallegu svörtu sandfjöru sem nær frá Þorlákshöfn að ósum Ölfusár. Margir knapar njóta þess að ríða í flæðarmálinu og einnig má sjá brimbrettakappa spreyta sig á öldunum. Skötubótin hentar vel fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á brimbrettum en þeir sem eru lengra komnir fara á brimbretti við Hafnarnesvita þar sem öldurnar eru meira krefjandi.
Svalvogar
Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.
Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr billinn þinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.
Svörtu sandarnir við Djúpavog
Rétt fyrir utan flugvöllinn á Djúpavík eru hinir svonefndu Svörtu sandar. Þeir eru sannkölluð náttúruperla, en fuglalífið þar er algjörlega einstakt. Svæðið er frábært til hverskyns útivistar fyrir alla fjölskylduna, sérstaklega fuglaáhugafólk.
Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni.
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu.
Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull á Snæfellsnesi
Önundarfjörður
Önundarfjörður er 20 km langar fjörður sem liggur á milli Dýrafjarðar og Súgandafjarðar. Fjörðurinn er um 6 km breiður við mynni hans en mjókkar þegar innar dregur. Inn af Önundarfirði ganga litlir grónir dalir og undirlendi er töluvert.
Í Önundarfirði eru allmargir sveitabæir og utarlega í firðinum stendur þorpið Flateyri. Í firðinum er fallegt um að litast og mikilfengleg fjallasýn umkringir hann. Í Önundarfirði er Holtsfjara og í henni stendur Holtsbryggja sem er vinsæll viðkomustaður ferðalanga sem og heimamanna. Þar er gyllt strandlengja og stór trébryggja.
Til að komast til Önundarfjarðar frá Ísafirði er ekið í gegnum Vestfjarðagöng.
Illugastaðir
Illugastaðir, er frægur selaskoðunar- og sögustaður. Á Illugastöðum á vestanverðu Vatnsnesi hefur verið byggður upp góður selaskoðunastaður. Gott bílaplan er á staðnum og þjónustuhús með salernisaðstöðu. Lagðar hafa verið lagðar gönguleiðir með sjónum. Á skerjum fyrir utan og syndandi í sjónum má flesta daga ársins sjá fjölmarga seli. Einnig hefur verið reist selaskoðunarhús út í tanga. Þar eru upplýsingar um selina og góð aðstaða til að fylgjast með selunum á sundi og liggjandi í skerjum. Athugið! Vegna mikils æðarvarps sem er á Illugastöðum þá er selaskoðunasvæðið lokað frá 30. apríl til 20. júní ár hvert[6].
Morðin á Illugastöðum.
Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.[7]
Höfðagerðissandur
Höfðagerðissandur heitir breið sandfjara milli Héðinshöfða og Eyvíkur. Höfðagerðissandur er vinsælt útivistarsvæði Tjörnesinga og Húsvíkinga og er talvalin staður fyrir göngu- og hlaupatúra. Frá fjörunni sést til Lundeyjar. Höfðagerðissandur er 5km norðan við Húsavík, keyrt er úr bænum framhjá PCC og átt að Tjörnesi og er afleggjari til vinstri þar sem er hægt að leggja bílnum.
Hvítserkur
Fjallahöfn
Leiðin austur eftir vegi nr.85, liggur eftir bröttum klettum Tjörnes og niður á flata svæðið í Öxarfirði. Þegar komið er niður brekkuna blasir við löng sandströnd og er lítið bílastæði vinstramegin við veginn. Kjörið tækifæri til að leggja bílnum þar og taka sér göngutúr eftir svartri sandströndinni og njóta ferska sjávarloftsins og útsýnisins.
Vinsamlegast ekki reyna að keyra eftir ströndinni.
Borgarsandur
Austan við Sauðárkrók er falleg svört sandströnd. Auðvelt er að leggja bílnum við vesturenda strandarinnar og fara í göngutúr til að njóta útsýnisins yfir Skagafjörð. Auðveld ganga sem hentar öllum og skemmtilegt að týna gersemar sem finnast á ströndinni.
Brákarey í Borgarnesi
Breiðafjörður
Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Við hliðina á Jökulsárlóni í Vatnajökulsþjóðgarði er staður sem færri kannast við, Fellsfjara (Eystri- og Vestri-Fellsfjara, austan og vestan megin Jökulsár á Breiðamerkursandi. Hann saman stendur af sandfjörum sem eru oft skreyttar með ísjökum sem borist hafa með Jökulsá á Breiðamerkursandi að sjónum og skola svo aftur upp á sandinn með öldunum. Ísjakarnir sem minna á demanta ásamt þokunni sem leggst yfir ströndina skapa töfrandi andrúmsloft.
Ís-demantarnir bjóða upp á enn stórfenglegri sjón yfir vetrarmánuðina þegar sólin rís og baðar ströndina fallegri lýsingu sem endurspeglast á ísjökunum. Að láta sig hafa biðina í myrkrinu fyrir sólarupprás er vel þess virði, þrátt fyrir nístingskulda íslensku næturinnar.
Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn, Gamlabúð
Búðir á Snæfellsnesi
Fjaran á Dalvík
Í Dalvíkurhöfn er lítil trébrú þar sem hægt er að komast að svartri sandströnd. Hægt er að ganga að Svarfaðardalsá. Takið ykkur tíma, stoppið og fylgist með fjölbreyttu fuglalífi á leiðinni.
Hvalnes
Hvalnes er lítill skagi með svartri smásteina strönd sem nær nokkra kílómetra. Á enda Hvalness prýðir gamall, gulur viti, tilvalinn til myndatöku með stórbrotinni náttúrunni, sem og gamall torfbær sem ber sama nafn, Hvalnes. Ströndin nær nokkra kílómetra og er tilvalin til þess að fara létta göngu eða bara til þess að slappa af á ströndinni og njóta útsýnisins. Hvalnes er kjörinn staður til fuglaskoðunar og ljósmyndunar.
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.
Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- og
hjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.
Fjaran á Ólafsfirði
Hægt er að leggja bílnum í bænum og fara í göngutúr að fallegri svartri strönd, gengið er í átt að Kleifum. Einnig er hægt að komast að ströndinni á bíl en verið viss um að leggja á afmörkuð bílastæði.
Fljótavík
Gásir í Eyjafirði
Heitir pottar á Hauganesi
Sandvíkurfjara við Hauganes er eina aðgengilega sandfjaran á Norðurlandi sem snýr móti suðri. Fjaran hefur löngum verið leikvöllur barnanna í þorpinu og þar sem hún er grunn langt út hitnar sjórinn smávegis á sólríkum góðviðrisdögum.
Í fjöruna höfum við sett upp tvo stóra heita potta, sem eru með sírennsli á heita vatninu, og búningsaðstöðu. Frekari uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu og því óskum við eftir því að gestir setji 500kr á mann í sjóð fyrir notkun á aðstöðunni. Hægt er að greiða á Baccalá bar, með Aur og á staðnum. Pottarnir eru opnir frá 9-22 og ekki er heimilt að nota þá utan þess tíma nema láta vita og skrá ábyrgðarmann. Hafið samband við Baccalá Bar, s. 620 1035. Vöktun er á svæðinu með öryggismyndavélum en allir eru á eigin ábyrgð og við biðjum alla að ganga vel um!
Heitu pottarnir í fjörunni hafa vakið verðskuldaða athygli, má þar nefna umfjöllun á mbl.is: Sjósund mót sólríku suðri
Holtsfjara
Önundarfjörður er einstaklega fallegur fjörður, meira að segja á Vestfirskan mælikvarða. Þetta er að mestu leiti að þakka Holtsfjöru sem einkennist af gulleitum skeljasandi. Heimsókn í Holtsfjöru á góðm sumardegi getur verið eins og að vera á Spáni. Trébryggjan í Holti er einnig einn mest myndaði staður á Vestfjörðum.
Hraunahafnartangi
Hraunhöfn dregur nafn sitt af náttúrulegri höfn, sem þótti sæmilegt skipalægi áður fyrr og er hennar getið í heimildum frá 13. öld. Á Hraunhafnartanga er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu.
Hraunhafnartangi og Rifstangi eru nyrstu tangar fastalands Íslands, aðeins rúmum kílómetra sunnan við norður heimskautsbaug. Gestir sem koma með mynd af sér við vitann geta fengið vottorð hjá þjónustuaðilum um að hafa komið á nyrsta odda landsins.
Hafa þarf í hugsa að æðarfugl er alfriðaður á Íslandi og er öll umferð bönnuð í og við æðarvarpið frá 15.apríl til 14.júlí.
Örlygshöfn
Örlygshöfn er staðsett við sunnanverðan Patreksfjörð. Þar er að finna gullna strönd og á sólríkum sumardögum verður sjórinn ljósblár og suðrænn að sjá. Nálægt Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti en þar er að finna ýmsa áhugaverða muni tengda lífi og vinnu til sjós og lands með áherslu á Vestfirði og Breiðafjörð. Safnið hefur verið þarna í rúm 30 ár og þar eru settar upp ýmsar sýningar.


Vöðlavík gönguleiðir
Vöðlavík, sem stundum er kölluð Vaðlavík, er eyðivík sunnan Gerpis en þar voru áður nokkrir sveitabæir. Vegarslóði liggur til Vöðlavíkur, sem er einungis opinn á sumrin og er þá fær er fjórhjóladrifnum bílum.
Tvær stikaðar gönguleiðir liggja til Vöðlavíkur frá Eskifirði/Reyðarfirði, annars vegar yfir Karlsskálastað og hins vegar fyrir krossanes. Frá Vöðlavík liggur gönguleið yfir í Sandvík. Það er um fimm klukkustunda ganga um Gerpisskarð, sem fer hæst í um 700 m.y.s.
Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus.
Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Til dæmis strandaði skipið Bergvík SU í Vöðlavík í desember 1993. Mörgum er enn í minni að við tilraun til þess að ná skipinu á flot strandaði björgunarskipið Goðinn í víkinni þann 10. janúar 1994. Einn fórst við strandið en þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bjargaði öðrum skipverjum. Um þessa atburði er fjallað í heimildarmyndinni Háski í Vöðlvík.
