Fara í efni

Viti - Akranesviti

Akranes

Fyrsti vísir að vita á Akranesi var ljósker á Teigakotslóð sem kveikt var á árið 1891. Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Syðriflös á Akranesi eftir teikningu Thorvalds Krabbe verkfræðings. Ljóshúsið var smíðað úr járnplötum úr Goðafossi sem strandaði undir Straumnesfjalli árið áður.

Vitinn stendur enn þó hann hafi ekki verið notaður frá 1947. Hann er er tíu metra hár og er opinn almenningi en frábært útsýni er efst úr vitanum. 

Árin 1943 - 1944 var reistur nýr 19,2 metra hár viti eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings. Efst á vitanum er efnismikið steinsteypt handrið með rimlum. Hægt er að komast upp í vitann og er stórkostlegt útsýni úr honum til allra átta. 

Hljómburður í Akranesvita þykir einstaklega góður og hafa verið haldnar tónlistaruppákomur þar inni en þar eru fjögur steinsteypt milligólf og stigar milli hæða.

Upplýsingar fengnar úr Vitar á Íslandi, útgefandi Siglingastofnun Íslands árið 2002.