Fara í efni

Hulduefni - Vilhjálmur Bergsson

Til baka í viðburði
Hvenær
4. september - 4. janúar
Hvar
Listasafn Reykjanesbæjar
Klukkan
12:00-17:00

Hulduefni - Vilhjálmur Bergsson

Hulduefni
Vilhjálmur Bergsson
4. september 2025 – 4. janúar 2026
Opnun sýningarinnar fer fram fimmtudaginn 4. september kl. 18:00 - 20:00.
 
Nýverið barst Listasafni Reykjanesbæjar dýrmæt gjöf frá Vilhjálmi Bergssyni, myndlistarmanni. Í henni er að finna verk frá lokum sjötta áratugar síðustu aldar, fram á þriðja áratug þessarar aldar; nær sjötíu ár af samfelldri myndlistarsköpun Vilhjálms Bergssonar.
 
Valin verk úr gjöfinni eru nú aðgengileg í Listasafni Reykjanesbæjar á sýningunni Hulduefni. Þar má sjá yfir fimmtíu verk frá 1959 til fyrstu ára þessa áratugar; olíumálverk eru í meirihluta, en einnig eru á sýningunni tölvuverk, vatnslitaverk og teikningar. Verkin gefa góða mynd af þróuninni í verkum Vilhjálms og hans fágætu tæknilegu færni og þekkingu.
Í gerð sýningarinnar gáfu samtöl við Vilhjálm um myndlistarsköpun hans, sem og skrif hans um eigin myndlist og aðra myndlistartengda þanka allt frá unglingsárum, sjaldfengna innsýn í framvindu verka hans og þá hvatningu sem býr að baki.
 
Þekkt er að Vilhjálmur nefndi löng tímabil í listsköpun sinni Samlífrænar víddir og síðar Takmarkalaust orkuljósrými. Í óbirtum skrifum frá 1954-2007 tekst hann á við rannsókn sína í myndlist samhliða sköpuninni. Hann fangar í orðum þanka sína um myndlist almennt, áþreifanlega og óáþreifanlega þætti hennar, samtíma og sögu, hefð og byltingu, og hugarástand, þess sem skapar og þess sem skoðar.
Vilhjálmur hefur teiknað mikið allan feril sinn en sjaldan sýnt teikningar. Hann lítur svo á að í dráttlist hafi hugmyndir hans gerjast og að þær fjölmörgu teikningar sem eftir hann liggja séu eins konar forðabúr hugmynda hans.
Eins hárnákvæm og hnitmiðuð og verk hans eru, telur hann sköpunina í eðli sínu sjálfsprottna. Hún sé samtímis hversdagsleg og yfirskilvitleg, viðfangsefnið allt frá því að tjá af nákvæmni eina hugsun og til þess að grandskoða hið hulda í heiminum.
 
“Einu má slá föstu, með skynsemi einni leysir manneskjan ekki lífsgátuna. Hversu víðtækt er skynsvið hennar? Eru heilar víddir, þegar allt kemur til alls, utan seilingar? Það skiptir í rauninni ekki sköpum, heldur hitt, að vera trúr sínu eðli og þeirri óvissu, sem er hlutskipti þess.” Vilhjálmur Bergsson, 1996
 
Hulduefni er það efni sem okkur er hulið sjónum, meira en þrír fjórðu alls efnis í alheimi samkvæmt kenningum heimsfræði. Það er jafnframt einn af þeim huldu þáttum sem stjórna útþenslu alheimsins.
 
Vilhjálmur Bergsson er fæddur í Grindavík 1937. Hann sótti myndlistarnám í Reykjavík á sjötta áratugnum og hélt að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík (1958) til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram myndlistarnámi (1958-1960).
Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hann stundaði nám við Académie de la Grande Chaumière (1960-1962).
Vilhjálmur varð félagi í SÚM 1969 og formaður frá 1971-1972. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn 1963-1966 og 1972-1977, Madrid 1967-1968 og í París 1977-1978. Frá 1983-2000 bjó Vilhjálmur og starfaði í Düsseldorf í Þýskalandi. Frá 2000-2024 var Vilhjálmur búsettur og starfaði í Grindavík og hefur nú aðsetur í Vík í Mýrdal.
Vilhjálmur hefur haldið tugi einkasýninga á verkum sínum, m.a. í Gallerí SÚM, Norræna húsinu, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur og í Galerie AP, Kaupmannahöfn. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu.
 
Hanna Styrmisdóttir er sýningarstjóri Hulduefnis og tímabundið starfandi sérfræðingur í Listasafni Reykjanesbæjar.
Áður hefur Hanna m.a. verið prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, stýrt Listahátíð í Reykjavík og verið sýningarstjóri Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum í myndlist.
 
Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði.

Aðrir viðburðir

5. jún

Opnun sumarsýninga Byggðasafns og Listasafns Reykjanesbæjar

Duus Safnahús / Duus Museum, Duusgata, Reykjanesbær
5. jún

Eagles - Bestu lög Eagles

Café Bryggjan, Miðgarður, Grindavík
6. jún

Bakkalábandið - Lagst að bryggju

Café Bryggjan, Miðgarður, Grindavík
17. jún

Þrautaleikur fjölskyldunnar

Reykjanesbær