Fara í efni

Heimsmynd - Áki Guðni Gränz

Til baka í viðburði
Hvenær
4. september - 4. janúar
Hvar
Listasafn Reykjanesbæjar
Klukkan
12:00-17:00

Heimsmynd - Áki Guðni Gränz

Heimsmynd
Áki Guðni Gränz
4. september 2025 – 4. janúar 2026
Opnun sýningarinnar fer fram fimmtudaginn 4. september kl. 18:00 - 20:00.
 
Í sýningunni Heimsmynd er horft til Áka Guðna Gränz (1925–2014), alþýðulistamanns sem skapaði sér einstaka stöðu í menningarlífi Njarðvíkur og víðar. Verk hans voru aldrei einungis eftirmyndir af landslagi eða fólki – þau voru persónuleg kortlagning á hugmyndaheimi hans, þar sem draumar, þjóðsögur og minningar blönduðust saman. Í þessum verkum speglast heimssýn manns sem hafði djúpa rót í samfélagi sínu, en líka ríkan innri heim sem hann miðlaði á sinn einstaka hátt.
 
Áki var málarameistari að mennt en ástríðufullur listamaður í hjarta sínu. Hann leitaði sífellt leiða til að fanga það sem hann upplifði í náttúru, sögum og samfélagi. Í Heimsmynd birtast þessi leitandi spor: málverk sem eru ekki aðeins landslag eða portrett, heldur túlkanir á innra landslagi hans sjálfs. Þar má finna tröll og goðsagnaverur, hetjur og skáld, minningar úr byggðarlagi og draumkenndar sýnir sem teygja sig út fyrir hið hversdagslega. Í verkum Áka mætast tvö svið: hið sýnilega landslag og ósýnilegur heimur sagna og drauma. Hann málaði tröll og álfa sem áttu sér rætur í þjóðsögnum staðarins, en líka sögulegar persónur sem hann fann til tengsla við. Með þessu sameinaði hann ólíkar víddir í eina heild – það sem var, það sem gæti verið, og það sem aðeins birtist í hugskoti listamannsins.
 
Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans.
 
Áki var afkastamikill listmálari, myndhöggvari og hannaði ýmiskonar merki og fána m.a. bæjarmerki Njarðvíkur og merki Kvenfélags Njarðvíkur, Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og fleiri. Áki tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, kjörinn í hreppsnefnd Njarðvíkur árið 1970, var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Njarðvík til 1986 og forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur 1982-1986. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Njarðvíkur, var stofnfélagi í Lionsklúbbi Njarðvíkur og einna af stofnendum Sjálfstæðisfélags Njarðvíkur. Áki sat í undirbúningsnefnd stofnunar félags Keflavíkurverktaka og var bæði meðstofnandi og í stjórn félags málaraverktaka í Keflavík.
 
Helga Þórsdóttir er sýningarstjóri Heimsmyndar og er einnig safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar.
 
Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Aðrir viðburðir

5. jún

Opnun sumarsýninga Byggðasafns og Listasafns Reykjanesbæjar

Duus Safnahús / Duus Museum, Duusgata, Reykjanesbær
5. jún

Eagles - Bestu lög Eagles

Café Bryggjan, Miðgarður, Grindavík
6. jún

Bakkalábandið - Lagst að bryggju

Café Bryggjan, Miðgarður, Grindavík
17. jún

Þrautaleikur fjölskyldunnar

Reykjanesbær