Fara í efni

Eldborg gönguleið

Borgarnes

Eldborg í Hnappadal á Snæfellsnesi er óvenjulega formfagur gígur sem rís 60 metra yfir hraunið í kring og er stærstur gíga á stuttri gossprungu. Gígopið er sporöskjulagað, um 100 metrar í þvermál og 50 metra djúpt. Veggirnir eru mjög brattir, gerðir úr örþunnum hraunskánum. Eldborg var friðlýst árið 1974.

Gönguleiðin upp á Eldborg er fjölbreytt þar sem gengið er í gegnum kjarri vaxið hraun. Fallegar hraunmyndanir eru á leiðinni og ef vel er að gáð má sjá margar kynjaverur. Ofan á Eldborg er mikið útsýni í allar áttir en í góðu skyggni má sjá fjallahring allt frá Snæfellsjökli að Reykjanesi. Gönguleiðin byrjar við þjónustusvæði við Snorrastaði en þar er að finna gistiaðstöðu. Gönguleið hefur mismunandi undirlag en meirihluti hennar er á hraunbreiðu. Við rætur og upp hlíðar Eldborgar er að finna keðjur til að aðstoða göngufólk upp og niður hlíðar Eldborgar. 

 • Staðsetning: Hnappadalur í Borgarbyggð
 • Vegnúmer: Snæfellsnesvegur nr. 54, Snorrastaðir
 • Erfiðleikastig: Auðvelt en það eru há þrep á leiðinni
 • Lengd: 6.64 km
 • Hækkun: 50-100 metrar
 • Merkingar: Merkingar við upphaf og nokkrar stikur sem vísa veg
 • Tímalengd: 1 klst og 30 mín
 • Undirlag: Litlir og stórir steinar, hraun og mold
 • Hindranir á leiðinni: Það eru þrep á leiðinni og það getur verið erfitt að halda sig á réttri leið
 • Þjónusta á svæðinu: Finna má salerni á leiðinni og ruslatunnur eru á þjónustusvæðinu við Snorrastaði
 • Lýsing: Hluti leiðar er upplýstur, frá Snorrastöðum að upphafi gönguleiðar
 • Árstími: Leiðin er opin allt árið um kring
 • GPS hnit upphafs/endapunktar: N64°46.4456 W022°18.1262