Fara í efni

Rólon - Magnús Helgason

Til baka í viðburði
Hvenær
5. febrúar - 22. maí
Hvar
Austurmörk 21, Hveragerði
Klukkan
12:00-17:00

Rólon - Magnús Helgason

Sýningarstjóri: Erin Honeycutt

Frá því að Magnús Helgason útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá AKI í Enschede í Hollandi árið 2001 hefur hann aðallega unnið með tilraunakvikmyndalist, innsetningar, málverk og skúlptúr. Snemma á ferlinum einbeitti Magnús sér að tilraunum í kvikmyndalist og hljóð-/myndinnsetningum, sem meðal annars fólu í sér kvikmyndaverkefni tengd tónleikahaldi Jóhanns Jóhannssonar. Síðan þá hafa verk hans þróast yfir í áþreifanlegri innsetningar sem minna um margt á fyrri hljóð-/myndverk hans, en sjónarhornið hefst á sjálfu gangvirkinu.

Sýningin samanstendur af ákveðnum innsetningum sem unnar eru úr ýmiskonar efniviði. Rauði þráðurinn er lögmál eðlisfræðinnar og verkin bjóða okkur upp á að upplifa undrun yfir einföldum vísindalögmálum. Þættir þessarar sýningar sérstaklega eru: stálkúlur og fimleikaborðar. Hver þáttur er látinn hverfast – ýmist snúast á staðnum eða hringsóla í stærri eða minni hringi og þannig gefa til kynna einskonar sólkerfi sem áhorfandinn stígur inn í.

Í verkum sínum notast Magnús oft við fundinn efnivið sem hann umbreytir ýmist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann velur hluti og efni, sem stundum hefur verið umbreytt af náttúrunni eða af mannavöldum til annarra nota, og setur þetta aftur saman í nýja heild. Í leit að fegurð og jafnvægi mæta verkin áhorfandanum í gegnum skynjunina.

Árið 2018 tók Magnús þátt í sýningunni VIÐ HLIÐ í Verksmiðjunni á Hjalteyri en þar var einnig að finna verk eftir þau Baldur Geir Bragason, Erwin van der Werve og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur. Þessi fjórir listamenn drógu sig saman á grundvelli sameiginlegrar tilfinningar fyrir rými, efniviði og fagurfræði. Verk Magnúsar hafa sterka efnis- og rýmiskennd ásamt fagurfræði í sjálfu sér og kalla þannig fram tafarlaus viðbrögð sem krefjast ekki sérstaks kóða til að túlka þau. Reyndar hefur kóðinn með öllu verið fjarlægður og hér er sem við sjáum vísindasýningu á röngunni sem leiðir frekar til leiks en rannsóknarniðurstaða. Á vissan hátt leitast Magnús við að finna leiðir til að beisla ósýnilega krafta náttúrunnar með því að staðsetja hversdagslega hluti í samsetningar sem afhjúpa nýja merkingu tilgangs þeirra og tilveru; sumir kynnu að kalla þessa afhjúpun „dútl“. Hversdagshlutir birtast sem ljóðrænir munir, myndhverfingar einfaldra náttúrulögmála.

Árið 2020 tók Magnús þátt í sýningaröðinni Skúlptúr/skúlptúr í Gerðasafni ásamt Ólöfu Helgu Helgadóttur. Sýningaröðin kannar þróun samtímaskúlptúrs innan þrívíðra lista, ekki einungis sem mikilvægs þáttar í listasögunni heldur einnig sem lifandi myndlistarmáls innan samtímalistarinnar. Duchamp skrifaði að „listsköpunin er ekki framin af listamanninum einvörðungu; áhorfandinn færir verkið í samband við umheiminn með því að ráða í og túlka innri verðleika þess og bætir þannig eigin framlagi við sköpunina.“ Margt hefur breyst síðan Duchamp skrifaði þetta árið 1957, þá sérstaklega stjórn ýmissa utanaðkomandi áhrifavalda á áhorfendum, hvort sem er í líki stjórnmála eða „listasenunnar“. Augað er ekki jafn saklaust og það eitt sinn var og „frjáls hugsun“ er ekki án endurgjalds. Það er sjaldgæft að áhorfendum sé boðið að sjá á hátt sem er án fyrri túlkanna, jafnvel enn erfiðara innan veggja listasafns. Engu að síður er það lagt fram eins og ljóð á blaðsíðu sem ekki veit hvernig það verður túlkað.

Í stað þess að birtast brotkenndir eru hinir ýmsu þættir aðgreindir en þó fljótandi í sama árfarvegi. Það er eitthvað frumspekilegt, jafnvel yfirskilvitlegt, við slíkan minimalisma en þungi fortíðar minimalismans hefur hér verið innfærður með frelsi til að leika sér. Með frumkvöðulsanda tekst Magnús á við þessa áskorun um að framkvæma hugmyndir sem verknað með vilja. Þótt það sé rýmiskennd í innsetningunum, að því leyti að þær skapa rými til íhugunar, þá er áhorfandanum boðið að vera vakandi og þátttakandi, að grípa ýmsa þætti í sínu hráa ástandi, eins og að reyna að lesa sérstaklega ómálfræðilega rétt ljóð. Verk Magnúsar eru ekki vitsmunaleg, en hinsvegar má upplifa einhverskonar efnafræðilega suðu vitsmunalegra og tilfinningalegra sveiflna milli frumundrunar og leikandi blekkinga.

Með ögn af fagurfræði skrípagangs sem framkvæmir ýktan verknað til að kalla fram skyndileg og fyndin áhrif, beinist skrípaleikur Magnúsar að því að koma fram einfaldri tegund fegurðar. Verk Magnúsar virðast koma einhversstaðar utan við listaheiminn, eins og uppfinningamaður/verkfræðingur sem hefur snúið baki við verkefni sínu til að dútla við leik og möguleika á minni kraftaverkum. Samt verður verkið að lokum að list að öllu leyti.

Sneitt er hjá öllum smættandi útskýringum líkt og í ljóði, abstraksjón sem við getum dregið af stálkúlu að hringsnúast um sjálfa sig. Leitin að fegurðinni er lögð til hliðar þangað til að eitthvað hulið finnst í hráefninu sem var þarna beint fyrir framan nefið á okkur. Skúlptúrískur verknaðurinn hér er sá að tálga burt, en þannig að það er „dútlað“ við það sem virkar og það sem virkar ekki sem þó verður að lokum að umbreytast.

Magnús Helgason (1977) útskrifaðist frá listaháskólanum Aki í Hollandi árið 2001 og hefur síðan helgað sig tilraunakenndri kvikmyndalist og málaralist en síðastliðin ár hafa innsetningar orðið meira áberandi í listsköpun hans. Magnús notar fundinn efnivið sem hann umbreytir ýmist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann tekur hluti og efni, ýmist sem náttúran hefur veðrað eða maðurinn skapað í öðrum tilgangi, og raðar saman í nýja heild. Myndlist Magnúsar þarfnast ekki útskýringa. Helst eiga verkin að fara framhjá heilanum og hitta áhorfandann beint í hjartað. Nýlegar sýningar eru Shit hvað allt er gott (Gerðarsafn, 2020), Rólegur Snati við snertum aldrei rúllustigahandrið (Listamenn Gallerí, 2020) og Ég er ekki of ég er on (Kaktus, Akureyri, 2020).

Erin Honeycutt (1989) er rithöfundur, bóksali og sýningarstjóri sem býr og starfar í Berlín. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands auk MA-gráðu í trúarbragðafræðum frá Universiteit van Amsterdam. Hún skrifar ljóð, sýningarrýni og margvíslegan texta í samvinnu við listamenn. Erin var tilnefnd til Broken Dimanche Press verðlaunanna fyrir skrif um list og textar hennar hafa meðal annars verið birtir í SAND Journal, BARAKUNAN og Neptún Magazin.

erinhoneycutt.persona.co

Aðrir viðburðir

28. maí - 28. maí

Fimmtudagsfjör í Gamla fjósinu

Gamla fjósið
5.- 6. jún

Hengill Ultra 2020

5.- 7. jún

Námskeið hjá Glacier Adventure - Jökla 2 & 3

Glacier Adventure, Höfn í Hornafirði
5.- 7. jún

Fjallaskíðamót

Kerlingarfjöll