Fara í efni

Loftnet - Hrafnkell Sigurðsson

Til baka í viðburði
Hvenær
2. mars - 25. ágúst
Hvar
Austurmörk 21, Hveragerðisbær, Iceland
Klukkan
12:00-17:00

Loftnet - Hrafnkell Sigurðsson

Náttúran er ekki bara allt um lykjandi heldur leynist hún sömuleiðis innra með okkur og hindrar okkur í að draga skörp skil milli ytri veraldar og innri vitundar. Þess vegna glímir Hrafnkell Sigurðsson við náttúruna eins og sá sem veit sig vera óaðskiljanlegan hluta hennar í einu og öllu. Hann spennir hornótt og áberandi tjöld sín - framandi aðskotahluti í líkingu við samhverfar geimstöðvar eða austurlenskar pagóður - andspænis mjallhvítri fönninni alltumlykjandi. Leikur hans í náttúrunni einkennist af ögrandi hvatskeytni af því umgjörðin getur ekki fylgt honum eftir í reglufestu en verður að láta sér nægja að vera hlutlaus bakgrunnur sviðsetninga hans. Innri náttúra mannsins birtist hins vegar í öllu sínu veldi í myndbandinu Buchers´ Duel, einvígi tveggja samhverfra slátrara, hangandi á krókum í lausu lofti eins og stríðandi samúræjar í pastelleitum frystihússbúningum á svörtum bakgrunni, tilbúnir að vega hvor annan með breddum sem fá þó aldrei snortist.

Annars konar gestaþraut birtist nú í Loftnetum Hrafnkels, sumpart framhaldi af Fæðingu guðanna, sem hann setti upp í Ásmundarsal 2020 í formi myndbandssnöru á 5 LED-skjám. Hvort tveggja er afrakstur ótal ferða upp á hátind Skálafells, allt frá 2014, þar sem loftnetin þjóna sem grindur til að veiða mjöllina sem á þær hleðst með tilviljanakenndum hætti. Hliðstæðan við burðarteina myndhöggvarans sem hleður þá leir virðist augljós. Munurinn er sá að Hrafnkell kemur hvergi að sjálfri formmótuninni heldur lætur sér nægja að skrásetja ágang veðuráttunnar, afleiðingu náttúruaflanna og komast þannig sem næst almættinu án þess að slá eign sinni á áþreifanlega útkomuna.

Hrafnkell Sigurðsson (f. 1963) býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist með MFA-gráðu frá Goldsmiths College í London (2002) eftir nám við Jan van Eyck Listaakademíuna í Maastrict (1988-1990) og Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1987). Að eigin sögn leggur hann til form sem náttúran byggir á, tekur af þeim ljósmyndir sem hann vinnur svo áfram í tölvu, að hluta til með aðstoð gervigreindar. Mannshöndin, náttúruöflin og stafræn tækni renna saman í heildrænt ferli þar sem endanleg niðurstaða birtist í formi ljósmyndaverka.

Hrafnkell hlaut aðalverðlaun íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2023 fyrir sýningu sína Upplausn, sem átti sér tímabundið stað á 450 skjáum og stórum auglýsingaskiltum utandyra í Reykjavík og var hluti af yfirstandandi sýningaröð Listasafns Reykjavíkur og Y gallerís á útiskjáum.

Halldór Björn Runólfsson. 

Aðrir viðburðir

28. maí - 28. maí

Fimmtudagsfjör í Gamla fjósinu

Gamla fjósið
5.- 6. jún

Hengill Ultra 2020

5.- 7. jún

Námskeið hjá Glacier Adventure - Jökla 2 & 3

Glacier Adventure, Höfn í Hornafirði
5.- 7. jún

Fjallaskíðamót

Kerlingarfjöll