Lifandi tónlist í Listasafninu vegna Blómstrandi daga
16. ágúst klukkan 15:00 verður einstakur viðburður, tónleikar listamanna: Þuríður Sigurðardóttir söngkona með Borgari Magnasyni tónskáldi og kontrabassaleikara ásamt Óskari Guðjónssyni saxófónleikara.
Þetta einvala lið gleður gesti Blómstrandi daga í Listasafni Árnesinga þar sem kærleikurinn og sköpunarkrafturinn ræður ríkjum.
Elísabet Jökulsdóttir kemur einnig fram og les ljóð.
Ókeypis viðburður og allir velkomnir.
Látið ekki happ úr hendi sleppa.
Viðburðurinn er í boði Hveragerðisbæjar.
Þuríður Sigurðardóttir vakti fyrst athygli aðeins sextán ára gömul þegar hún söng sitt fyrsta lag á hljómplötu. Síðan þá hefur hún starfað með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins og komið fram bæði á dansleikjum og tónleikum víða um land. Árið 1969 gaf hún út sína fyrstu sólóplötu, og það sama ár var hún kjörin vinsælasta söngkona landsins. Árið 1981 hlaut hún svo sérstaka viðurkenningu á Stjörnumessu Dagblaðsins&Vísis, þar sem hún var heiðruð sem „Söngkona ársins í fimmtán ár“.
Þuríður er einnig virkur myndlistarmaður. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og hefur sýnt verk sín víða – meðal annars hér í Listasafni Árnesinga.