Fara í efni

Kosmos / Kaos sýningaropnun, Ragnheiðar Jónsdóttur

Til baka í viðburði
Hvenær
2. september - 22. desember
Hvar
Austurmörk 21, Hveragerðisbær, Iceland
Klukkan
12:00-17:00

Kosmos / Kaos sýningaropnun, Ragnheiðar Jónsdóttur

Þegar horft er yfir höfundarverk Ragnheiðar Jónsdóttur á sviði teikninga og dráttlistar í íslenskri listasögu sést bersýnilega hve einstök staða hennar er. Sýningin Kosmos/Kaos er haldin á nítugasta afmælisári hennar og skilaboð Ragnheiðar frá áttunda áratug síðustu aldar, um kvenréttindi, umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð, eiga enn vel við í dag. Í grafíkverkum Ragnheiðar birtast hversdagsleg fyrirbæri hlaðin táknum og vísa í vaxandi iðnað, pólitískt umrót og deilur, áníðslu á náttúrunni, félagslegan aktívisma, feðraveldið og kvenréttindahreyfinguna. Verk hennar eru beitt og fersk og hróplega áríðandi í umhverfis- og samfélagsmálum nútímans.
Verk frá upphafi ferils Ragnheiðar einkenndust af öflugum symbólisma og nákvæmum, krefjandi vinnubrögðum með ríkri áherslu á smáatriði, en slíkar aðferðir eru dæmigerðar fyrir grafíska list. Ríkjandi stef í verkum hennar eru óþægileg og forvitnileg – þrungin súrrealisma og þurri kímnigáfu.
Ragnheiður nýtir sér menningarlegar myndlíkingar með undarlegum formum sem vísa beint í pólitísk, siðferðisleg og samfélagsleg málefni á Íslandi á þessum tíma. Verk hennar höfðu mikil áhrif á kvenfrelsisbaráttuna og hún er enn í dag talin ein af mikilvægustu forvígiskonum feminískrar listar á Íslandi. Vinna hennar einkennist af andstæðum, og ekki einungis bókstaflegum andstæðum hins svarta og hins hvíta, heldur á hún einnig rætur í tvískiptingunni á milli smásmygli og frelsis, abstraksjónar og symbólisma, náttúrulegs og vélræns, myndrænnar framsetningar og tilfinningaþrunginnar túlkunar, á milli grafíklistar og frjálsrar teikningar. Á tíunda áratugnum byrjaði Ragnheiður að vinna eingöngu með stórar kolateikningar og sagði skilið við nákvæma þolinmæðisvinnu grafísku verkanna sem hún hafði helgað sig fram að því. Hún fjarlægðist hið bókstaflega líkingamál en einbeitti sér að myndmáli hreinnar og óhlutbundinnar tjáningar. Kolateikningar hennar voru jafn beittar og ákveðnar og grafísku verkin en bjuggu yfir frjálsari hreyfingu, léttleika og abstrakt táknsæi.
Hvaða lærdóm má draga af sextíu ára ferli Ragnheiðar sem frumkvöðuls í grafískri list og látbrigðateikningum? Síbreytileg og stöðugt vaxandi list hennar vísar í eðlislæga eiginleika mannsins – þörfina fyrir frelsi, abstrakt, öndun og hreyfingu, mitt í basli hversdagsins. Ferill Ragnheiðar ber vitni um þau áhrif sem listamaður getur haft á samfélag sitt, þann kraft sem býr í rödd eins listamanns sem vekur athygli á málefnum, hvetur fólk til aðgerða og ýtir undir samfélagslegar og pólitískar breytingar kynslóð eftir kynslóð.
———————————-
Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.
Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Móðir hennar Sigurbjörg var dóttir Ingvars Hannessonar bónda að Skipum Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkonu hans Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar bóndi á Skipum og okkar frábæri listamaður Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi
Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews.

Aðrir viðburðir

28. maí - 28. maí

Fimmtudagsfjör í Gamla fjósinu

Gamla fjósið
5.- 6. jún

Hengill Ultra 2020

5.- 7. jún

Námskeið hjá Glacier Adventure - Jökla 2 & 3

Glacier Adventure, Höfn í Hornafirði
5.- 7. jún

Fjallaskíðamót

Kerlingarfjöll