Fantasía í Tónlistarmiðstöðinni
Almennt um tónleikana:
Sóley Þrastardóttir, flautuleikari, og Kristján Karl Bragason, píanóleikari, halda tónleikana Fantasía í Tónlistarmiðstöð Austurlands þann 19. nóvember.
Á dagskrá eru valin verk fyrir þverflautu og píanó eftir frönsk tónskáld frá 19. og 20. öld. Þessi leiftrandi, ljúfu og draumkenndu verk leyfa áheyrendum að upplifa það töfrandi, fjölbreytta og blæbrigðaríka tónmál sem var einkennandi fyrir franska blásturshljóðfæratónlist á þessum tíma.
Efnisskráin:
Gabriel Fauré-Fantaisie op.79
Jean-Michel Damase-Sonate en concert op. 17
Philippe Gaubert-Sónata nr. 1 í A-dúr
François Borne- Fantaisie brillante sur 'Carmen'
Um flytjendurna:
Sóley Þrastardóttir stundaði þverflautunám hjá Jóni Guðmundssyni við Tónlistarskóla Austur-Héraðs á unglingsárunum og nam síðan flautuleik hjá Bernharði Wilkinson og Hallfríði Ólafsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk svo BMus gráðu í flautuleik frá Listaháskóla Íslands hjá Martial Nardeau. Þaðan lá leiðin til University of Oklahoma í Bandaríkjunum, þar sem hún nam hjá Valerie Watts og útskrifaðist með MMus og DMA gráður í flautuleik. Sóley hefur komið fram sem flautuleikari víða um heim en nýlega hefur hún fyrst og fremst lagt áherslu á að vera virk í tónlistarlífinu á Austurlandi. Undanfarin ár hefur hún leikið með Sinfóníuhljómsveit Austurlands, MELA listamannafélagi, flautukvartettinum Bjartsýni, Kammerkór Egilsstaðakirkju og Austuróp auk einleiks- og kammerverkefna af ýmsum toga. Hún hefur komið fram á tónleikaröðinni Tónlistarstundum og tónleikaröð Bláu kirkjunnar auk þess að koma fram á tónleikum á vegum Tónlistarmiðstöðvar Austurlands.
Kristján Karl Bragason hóf píanónám hjá Lidiu Kolosowska í Tónlistarskólanum á Dalvík og nam síðar hjá prófessor Marek Podhajski við Tónlistarskólann á Akureyri. Þá flutti hann sig suður yfir heiðar og lærði hjá Halldóri Haraldssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík. 2005-2012 stundaði Kristján framhaldsnám í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi og Noregi. Kennarar hans voru Shoshana Rudiakov, Edda Erlendsdóttir, Pascal Amoyel, Thérèse Dussaut og Katia Veekmans. Kristján lauk mastersnámi frá Conservatorium Maastricht 2012. Hann var einn stofnenda og listrænna stjórnenda tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík árin 2010 - 2016 þar sem hann flutti fjölda einleiks- og kammerverka. Síðustu ár hefur Kristján einbeitt sér að flutningi kammertónlistar og starfar jafnframt sem meðleikari og píanókennari við Menntaskóla í tónlist, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskóla Kópavogs.
Miðaverð:
2.500 kr. en frítt er fyrir 16 ára og yngri.
Tónleikarnir eru hluti af vordagskrá Tónlistarmiðstöðvar Austurlands.