Fara í efni

Endurmenntunar námskeið framhaldsskólakennara

Til baka í viðburði
Hvenær
6.- 9. júní
Hvar
Hallormsstaðaskóli
Klukkan
09:00-16:00

Endurmenntunar námskeið framhaldsskólakennara

Hallormsstaðaskóli í samstarfi við fagfélagið – FATEX, félag fata- og textílkennarar framhaldsskóla stendur fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir framhaldsskólakennara.
Námskeiðið er styrkt af Rannís - SEF sumarnámskeið.
Grunnskólakennurum er heimilt að sækja námskeið, en þeir þurfa að bera námskeiðskostnað sjálfir. Námskeið eru að jafnaði endurgjaldslaus fyrir framhaldsskólakennara.
________________________________________________________________________
6. – 9. júní 2023
Námskeiðsgjald - Frítt
 
Námskeiðslýsing
Haldið verður fjögra daga námskeið í Hallormsstaðaskóla þar sem þrír fagmenntaðir kennarar koma að fræðslu. Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu og verkkunnáttu með áherslu á sjálfbærar og skapandi leiðir í textíl. Unnið verður með aðferðir í leðursaum, spjaldvefnað og vöruþróun í textíliðnaði og sölu á markaði. Markmið er að þátttakendur geti nýtt þekkinguna til að auðga, víkka og stuðla að fjölbreyttari kennslu á framhaldsskólastigi í textílgreinum með áherslu á hringrásarhagkerfið, efnisþekkingu og endurnýtingu efna auk tengingu við efnahagslega sjálfbærni með atvinnusköpun í gegnum vöruþróun.
 
Þriðjudagur / miðvikudagur 6. – 7. júní – Leðursaumur – Signý Ormarsdóttir vöruhönnuður, kennari og listakona
Á námskeiðinu verður farið yfir aðferðir við leðursaum, tæki og tól, unnið er með fataleður og saumað á venjulegar heimilissaumavélar. Farið verður yfir leður og loðfeldi og hvernig mismunandi aðferðum er beitt við saumaskap, fullnýtingu á efninu og útfærslu. Farið verður yfir mismunandi leður dýra og hreindýraleður kynnt sértaklega en þar er vannýtt auðlind sem ekki er verið að nýta nægilega vel. Allir þátttakendur sauma eina leðurtösku þar sem farið er í sniðagerð, límingar, ísetningu rennilása, smella eða annarra fylgihluta. Þátttakendur eru hvattir til að koma með gamlar töskur til að endurnýta hluti af þeim eða klæða upp á nýtt, leðurfatnað eða feldi sem þarfnast viðgerðar eða til endurgerðar og nýta í leiðinni fagþekkingu Signýjar til að auka þekkingu og færni í leðursaum. Ef tími gefst til geta þátttakendur saumað annan hlut eða nýtt tíma til viðgerða ef komið er með slíkt efni. Þátttakendur eru hvattir að koma með heimilis saumavélar með, vélar með yfirflytjara eru flestar góðar til leðursaums.
 
Fimmtudagurinn 8. júní – Vöruþróun á textílhönnun vörur – Lára Vilbergsdóttir Framkvæmdastjóri Húss Handanna Egilsstöðum
Kennslan hefst á fræðsluerindi og umræðu um stöðu textílhönnunar í kennslu, vöruþróun í textíliðnaði og listhandverki, nýsköpun í greininni, framleiðsluaðferðir og sölu á markaði. Hvernig getum við unnið markvisst út frá stöðunni í kennslustofunni. Mikilvægi þess að vinna með staðbundin og endurnýtt hráefni, íslenska framleiðslu, handverk, náttúruleg efni með hringrásarhagkerfið sem leiðarljós.
Markmiðið er að auka þekkingu og skilning á hvers konar textíl vöru/hönnun þarf heimurinn á að halda í dag og hvernig sú þekking getur stutt við efnahagslega sjálfbærni sem og atvinnusköpun í greininni. Kennsla brotin upp með verklegri vinnustofu þar sem unnið er með umbreytingu mismunandi textílefna, efnisþekkingu, og að sækja sér innblástur í náttúruna og nærumhverfið til sköpunar og hugmyndar á vöru.
Dagurinn endar á vettvangsferð til Egilsstaða í Hús Handanna þar sem þátttakendum er kynnt margskonar handverk frá Austurlandi/Íslandi/Norðurlöndum. Erindi um framsetningu vöru í verslun sem leggur áherslu á uppruna vöru, höfundar einkenni, náttúruleg /endurunnin hráefni og mikilvægi þess að varan hafi „sögu“ að segja. Markmiðið er að þátttakendur geti nýtt þekkinguna í eigin kennslu og jafnvel þverfræðilega innan annarra faggreina í framhaldsskólum t.d. rekstur og bókhald, markaðsfræði eða vöruhönnun.
 
Föstudagurinn 9. júní – Spjaldvefnaður – Ragnheiður Björk Þórsdóttir vefnaðarsérfræðingur
Ragnheiður Björk kennir grunnhandtök í spjaldvefnaði og hvernig útfæra má margskonar mynstur með einfaldri aðferð og tækni. Spjaldvefnaður er vefnaðaraðferð sem tíðkaðist víðsvegar um landið fyrr á öldum. En eins og nafnið gefur til kynna eru spjöld notuð til verksins sem eru ferhyrnd með fjögur göt þar sem garn er þrætt í gegn. Með mismunandi aðferðum er spjöldunum snúið til að framkalla breytilegt mynstur í bandið sem er ofið. Breidd bandanna ákvarðast af fjölda spjalda og eru því nánast endalausir möguleikar í útfærslu munsturbands. Spjaldvefnaður er ævagamalt handverks sem barst hingað til lands með landnámi en á sér miklu lengri sögu allt að 3000 ára. Þátttakendur setja upp í spjaldvefnað eftir mynstri og vefa band undir handleiðslu Ragnheiðar. Markmiðið er að kynna framhaldsskólakennurum í textíl þessa aðferð og til að viðhalda handverksþekkingunni og miðla til komandi kynslóða í gegnum kennslu á framhaldsskólastigi. Gott er að hafa með sér belti til að festa uppistöðuna á sig til að auðvelda vefnað.
________________________________________________________________________
Innifalið
Allur efniskostnaður samkvæmt verkefnum sem lögð eru fyrir þátttakendur og afnot af áhöldum til verkefnavinnu. Mælt er með því að þátttakendur komi með eigin saumavélar fyrir leðursaum, vélar með yfirflytjara eru góðar fyrir leðursaum.
Vatn, kaffi og te í boði á námskeiðstíma auk kaffiveitinga.
Gisting og fæði eru ekki innifalin.
________________________________________________________________________
Dvöl í Hallormsstaðaskóla
Njóttu þess að dvelja í Hallormsstaðaskóla á námskeiðstíma með skóginn umvafinn í kringum þig. Gisting getur verið stykrhæf hjá þínu stéttarfélagi. Morgunverður innifalinn í gistingu, framreiddur milli kl. 8:15 - 8:45.
Einstaklingsherbergi án baðs 6.500 kr. nóttin.
Tveggjamanna herbergi án baðs 11.000 kr. nóttin.
Tveggjamanna herbergi með baði 16.000 kr. nóttin.
Öll herbergi eru með uppábúnum rúmum og handklæðum.
Snyrtingar eru að finna á þremur stöðum í húsinu.
Reynum að verða við öllum beiðnum um herbergjategund.
 
________________________________________________________________________
Fæði
Í Hallormsstaðaskóla nýtum við mikið af staðbundnu hráefni úr matarkistu Austurlands. Reynt er að forðast að kaupa mikið unnar vörur og vinnum frekar allt frá grunni sjálf.
Hádegisverður 2.050 kr. og er framreiddur kl. 12
Kvöldverður er ekki í boði en góð aðstaða er til eldamennsku í skólanum. Hótel Hallormsstaður er í göngufæri sem er með opið fyrir kvöldverð auk annarra veitingastaða á Egilsstöðum og nágrenni. Vök Baths býður upp á náttúrlaugar og bistro. Hvetjum alla til að ná sér í Austurlands appið (appelsínugul stjarna) þar er að finna tilboð og helstu veitingastaði á svæðinu.
________________________________________________________________________
Kannaðu þinn rétt á ferða-, námskeiðs- og tómstundastyrk verkalýðsfélaga og fyrirtækja. Stéttarfélög geta beðið skólann um staðfestingu á þátttöku.
 
Nánari upplýsingar eru í síma 471 1761 eða skrifið til hskolinn@hskolinn.is
 
Tengiliður við félag FATEX er formaður Sigrún Kristjánsdóttir Lyngmo skl@tskoli.is
fritt

Aðrir viðburðir

1. maí - 30. sep

Fjarðarbyggðarflakk fjölskylduleikur

Fjarðabyggð
1. maí - 25. sep

Perlur Fljótsdalshéraðs

Egilsstaðir
1. jún - 25. sep

Heiðarbýlin í göngufæri

Fljótsdalshérað