Fara í efni

Gallerí Snærós

Á Stöðvarfirði starfrækja myndlistarmennirnir Ríkharður Valtingojer og Sólrún Friðriksdóttir, Gallerí Snærós, í tengslum við vinnustofur sínar.  Þau fluttu til Stöðvarfjarðar árið 1985 og stofnuðu galleríið árið 1988 og var það þá eitt af fáum galleríum utan Reykjavíkur.  

Í galleríinu og í tengslum við það hafa verið haldnar margar myndlistarsýningar þar sem bæði innlendir og erlendir myndlistarmenn hafa sýnt verk sín.
Grafíksetrið er jafnframt rekið á sama stað og er öll aðstaða þar mjög góð.  Mörg námskeið og workshop hafa verið haldin í tengslum við galleríið og Grafíksetrið.

Ríkharður sem er austurrískur að uppruna, lærði silfursmíði og myndlist í Graz í Austurríki og útskrifaðist úr málaradeild Listaakademíunnar í Vín.  Hann fluttist til Íslands 1960  og  starfaði lengi sem kennari við grafíkdeild Myndlista-og handiðaskóla Íslands, seinna Listaháskólann.    

Sólrún útskrifaðist sem myndlistarkennari frá Myndlista-og handiðaskólanum árið 1979 og var síðan við nám í textílhönnun við sama skóla og einnig í Svíþjóð og Austurríki.  Hefur hún verið kennari við Grunnskólann á Stöðvarfirði um árabil og jafnframt kennt víðsvegar á námskeiðum.
Ríkharður og Sólrún hafa bæði haldið margar einkasýningar hérlendis og erlendis og tekið þátt í alþjóðlegum sýningum viðsvegar um heim.
Í galleríinu eru verk þeirra til sýnis og sölu.  Þar gefur að líta grafíkmyndir (litógrafíur,ætingar, mezzótintur, dúk-og tréristur) textílverk, s.s. myndvefnað, batik, tauþrykk og silkimálun. Keramik, rennda og mótaða muni úr jarðleir og steinleir, skartgripi, aðallega úr silfri og íslenskum steinum, glermuni, tækifæriskort o.fl.
Rósa Valtingojer dóttir þeirra hjóna og eiginmaður hennar Zdenek Patak eru ungir hönnuðir sem hafa sest að á Stöðvarfirði. Þau hafa stofnað hönnunarfyrirtækið Mupimup og sérhæfa sig í endurvinnslu í gegnum hönnun. Þau taka nú þátt í rekstri gallerísins og eru þeirra vörur einnig til sýnis og sölu þar. Má þar nefna, leirfugla, teikningar, barnafatnað, leikföng, ljós, tækifæriskort og fl.

Jafnframt því að skoða galleriið geta gestir litið í vinnustofurnar og fylgst með Ríkharði og Sólrúnu að störfum. Galleríið er opð daglega yfir sumartímann en eftir samkomulagi yfir veturinn.

Gallerí Snærós
Fjarðarbraut 42, 755 Stöðvarfjörður
Sími: 475 8931  861 7556
E-mail: info@gallerisnaeros.is solrun@gallerisnaeros.is rosa@mupimup.netwww.gallerisnaeros.is www.mupimup.net

Hvað er í boði