Fara í efni

Uppspuni

Uppspuni er fyrsta smáspunaverksmiðja landsins. Hún er fjölskyldurekin og þar er spunnið garn úr ull af kindum eigenda verksmiðjunnar, auk nágranna og eins getur fólk komið með ullina sína til verksmiðjunnar og fengið garn til baka af kindunum sínum. Garnið er 100% íslensk ull í náttúrulegum sauðalitum, mjúkt og slitsterkt. Það er til í nokkrum ólíkum grófleikum og hentar því í ýmis prjónaverkefni. Aðra liti en sauðaliti náum við fram með jurtalitun eða handlitun með litadufti. Fyrir ofan verksmiðjuna er notaleg og hlýleg garnbúð.

Garnbúðin

Í búðinni er hið einstaka garn frá Uppspuna til sölu ásamt ýmsum öðrum vörum úr ull, t.d. gæludýrapúðar, hitaplattar, sokkar, vettlingar, húfur o.fl. Við seljum líka fylgihluti með garninu eins og hnappa og prjóna fyrir tröllabandið. Margt listafólk úr héraði er með munina sína til sölu í búðinni t.d. handgerðar sápur og gjafavörur úr keramiki og tré.

Við spinnum fyrir þig

Uppspuni er staðsettur rétt austan við Þjórsárbrú og er aðeins 2 km frá þjóðvegi 1 í einu af landbúnaðarhéruðum landsins. Þangað er hægt að koma með ull og fá hana unna í garn að eigin óskum. Áður en komið er með ullina verður að hafa samband við Uppspuna til að fá leiðbeiningar um meðhöndlun hennar. Þær eru líka að finna á heimasíðunni. Tólf ólíkar vélar fullvinna mjúkt og yndislegt garn úr ullinni. Notuð eru umhverfisvæn hreinsiefni við vinnsluna og reynt að nota hvert reifi til fulls.

Leiðsögn

Hægt er að kaupa leiðsögn um vinnuferlið og fá í leiðinni fræðslu um uppruna íslensku sauðkindarinnar, prjónahefðir á Íslandi og eiginleika ullarinnar. Sjón er sögu ríkari og heimsókn í Uppspuna er sönn upplifun.

Staðsetning

Smáspunaverksmiðjan Uppspuni er staðsett í blómlegri sunnlenskri sveit, með Heklu, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og fleiri gersemar í fjallahringnum. Við erum á Suðurlandi, 18 km austan við Selfoss. Beygt inn á Kálfholtsveg nr. 288 að Lækjartúni, 851 Hellu. Opnunartíma má finna á heimasíðunni okkar www.uppspuni.is eða á fésbók www.facebook.com/uppspuni.is/. Þú finnur okkur líka á Google Maps.

Um okkur

Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson eru eigendur Uppspuna og búa í Lækjartúni með sauðfé og holdanaut. Þann 1. júlí 2017 hófst rekstur, en formleg opnunarhátíð smáspunaverksmiðjunnar og búðarinnar fór fram 17. og 18. mars 2018. Síðan þá hefur vinna í verksmiðjunni verið stöðug og framleiðsla á garni fjölbreytt. Þann 21. nóvember 2018 fengu eigendur verðlaun frá Icelandic Lamb fyrir Framúrskarandi verkefni.

Hvað er í boði