Fara í efni

Þórsmörk, Langidalur - Ferðafélag Íslands

Í Langadal í Þórsmörk, við enda Laugavegarins, stendur Skagfjörðsskáli, þar er gistirými fyrir 75 manns. 

Skálinn er stór og rúmgóður og er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er gengið inn í opið anddyri og inn af því er stórt opið eldhús með gashellum og kamínu, öllum mataráhöldum og köldu, rennandi vatni. Stór matsalur með borðum, stólum og sófahorni liggur til hægri handar en til vinstri handar inn af anddyrinu er lokaður gangur með tveimur svefnherbergjum með kojum og einu litlu eldhúsi. Á efri hæð hússins eru þrjú svefnloft með rúmbálkum og kojum. 

Góður pallur liggur við húsið þar sem hægt er að grilla og borða úti við. Bak við húsið ofan í laut er góð grillaðstaða fyrir stærri hópa en þar er stórt hlaðið útigrill, langborð og bekkir. Skálinn er tengdur salernishúsi með hellulögðum stíg og þar eru auk salerna, þrjár sturtur. Tjaldað er á grasblettum víða á svæðinu. 

Margvísleg aðstaða er í Þórsmörk og meðal annars er þar svokallað dagsferðahús þar sem bæði tjaldgestir og dagsferðalangar geta eldað og borðað nestið sitt. Í dagsferðahúsinu er einnig rekin lítil verslun með vínveitingaleyfi. 

Gestir skálans fara ýmist í dagsgöngur eða ganga Laugaveg eða Fimmvörðuháls. Vinsælar dagsgöngur á svæðinu eru ganga á Valahnúk og Tindfjallahringur. Þegar vel viðrar er krefjandi en skemmtilegt að ganga á Rjúpnafell. Þaðan er stórbrotið útsýni yfir Þórsmörk, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og inn á Fjallabak. Fjöldi annara gönguleiða eru á svæðinu, gott er að spyrja skálaverði um ástand gönguleiða hverju sinni. 

Hvað er í boði