Fara í efni

Tjaldsvæðið á Stokkseyri

Ferðagjöf á ekki við um þessa þjónustu

Tjaldsvæðið á Stokkseyri er mikið endurbætt svæði þar sem salernisaðstaða hefur fengið yfirhalningu, sturtur eru á staðnum og sett hefur verið upp losunaraðstaða fyrir húsbíla. Rafmagn hefur verið endurbætt og ætlunin er að fjölga tenglum fyrir komandi ferðasumar. Leikvöllur hefur verið settur upp fyrir börnin og göngustígur frá tjaldsvæðinu sem endar í miðbæ Stokkseyrar. Strætó gengur milli Eyrarbakka, Selfoss og Stokkseyrar alla virka daga svo stutt er í aðra afþreyingu á svæðunum í kring.

Stokkseyri er lítið þorp við suðurströndina sem er þekkt fyrir fuglalíf og stórbrotna og fagra fjöru þar sem skiptast á skeljasandur, sker, flúðir og lón. Öflugt lista- og menningarlíf er á svæðinu, þar sem vinnustofur, sýningarsalir og söfn leynast víða, auk handverks af ýmsu tagi. Dæmi um söfn er Veiðisafnið þar sem má skoða uppstoppuð dýr frá ýmsum heimshornum, Draugasetrið þar sem gestir fá að heyra draugasögur af bestu gerð um leið og þau ganga um safnið og Álfa- trölla- og norðurljósasetrið sem bíður upp á sýningar af ýmsu tagi. Einnig er þar að finna Þuríðarbúð sem er endurgerð verbúð sjómanna sem sýnir vel aðbúnað verbúðarfólks á fyrri öldum og austan við Stokkseyri stendur sjálfur Knarrarósviti í allri sinni dýrð og rétt við vitann er Rjómabúið við Baugsstaði þar sem eru til sýnis munir sem notaðir voru við mjólkurvinnslu á árum áður.Hvað er í boði