Fara í efni

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands

Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, var stofnað 1998 af hópi áhugamanna um menningu og listir sem kallaði sig Skaftfellshópinn. Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár myndlistarmannsins Dieters Roth (1930-1998) en hann gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga allt frá því að hann hóf að venja komur sínar í fjörðinn upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði. 

Starfsemin er staðsett í gömlu og glæsilegu timburhúsi að Austurvegi 42 á Seyðisfirði og var gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í dag má þar finna sýningarsal og litla verslun á annarri hæð, gestavinnustofu fyrir listamenn á þriðju hæð og bistró á jarðhæð sem einnig geymir bókasafn bókverka og listaverkabóka.

Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Miðstöðin þjónar jafnframt sem vettvangur fyrir listamenn og áhugafólk um listir til að skiptast á hugmyndum, taka þátt í skapandi samræðum og verða fyrir áhrifum hvert af öðru í umhverfinu. Í miðstöðinni er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, starfræktar gestavinnustofur fyrir listamenn og boðið upp á fjölþætt fræðslustarf. Jafnframt er hægt er að skoða verk eftir alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999) sem er að finna í Geirahúsi og er í eigu og umsjá Skaftfells. Hægt er að skoða húsið eftir samkomulagi. Einnig er hægt að skoða útilistaverkið Tvísöngur sem er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en verkið vann hann í samvinnu með Skaftfelli árið 2012. 

Skaftfell hlaut Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni árið 2013. 

Nánari upplýsingar um sýningarhald, aðra starfsemi Skaftfells og opnunartíma má finna á skaftfell.is  

Einnig er hægt að senda fyrirspurn á skaftfell@skaftfell.is

Hvað er í boði