Fara í efni

Selfoss Hostel

Selfoss er notalegur bær með skemmtilegt bæjarstæði við Ölfusá. Þar er að finna alla helstu þjónustu enda miðstöð verslunar og þjónustu á Suðurlandi  og fjölbreytt afþreying í boði fyrir ferðamenn. Hringvegurinn, eða þjóðvegur nr. 1, liggur í gegnum bæinn og frá Selfossi liggja vegir til allra átta. Selfoss Hostel er því kjörinn áfangastaður á leið um Suðurland, hvort sem síðan er haldið til inn til landsins, niður til sjávar eða áfram eftir hringveginum. 

Á Selfossi er góð sundlaug með glæsilegu útivistarsvæði, heitum pottum, rennibraut og leiktækjum. Á bökkum Ölfusár er 9 holu golfvöllur og tilvalið er að fara í gönguferðir með ánni. Einnig er Ingólfsfjall kjörið uppgöngu og þaðan sést vel yfir sléttur Suðurlands, fjallahringinn í norðri og austri, og til Vestmannaeyja í suðri. Í bænum er Lista- og dýrasafn Árnesinga og gaman er að heimsækja Selfosskirkju og skoða steinda glugga kirkjunnar eftir Höllu Haraldsdóttur listakonu.

Hostelið er í glæsilegu gömlu húsi í miðju bæjarins. Þar eru 1-4 manna herbergi, vel útbúið gestaeldhús, þvottahús fyrir gesti og skemmtilegt útisvæði með borðum og leiksvæði fyrir börnin. Á hostelinu er hægt að fá morgunverð, nestispakka til dagsins og rjúkandi kaffi og bakkelsi á kaffihúsinu okkar. Í gestamóttökunni er hægt að fá upplýsingar um svæðið og bóka dagsferðir með ferðaþjónustuaðilum í nágrenninu.

Hvað er í boði