Fara í efni

Reykhólar HI Hostel / Farfuglaheimili

Reykhólar HI Hostel er staðsett í samnefndu þorpi sem stendur yst á Reykjanesskaga milli Berufjarðar og Þorskafjarðar. Staðurinn er ríkur af bæði sögu og náttúrfegurð, en óvíða á Íslandi er hægt að sjá jafn margar fuglategundir á einum stað eins og á Reykhólum. Staðurinn er einnig fornt höfuðból og var einhver allra besta bújörð landsins á öldum áður. Milli 1947-1990 var svæðið nýtt sem tilraunastöð í jarðrækt og var húsið upphaflega byggt til þess að hýsa starfsfólk og starfsemi tilraunastöðvarinnar. Nú er í húsinu afbragðs gistiaðstaða fyrir einstaklinga og hópa allt árið um kring. Á staðnum er góð eldunaraðstaða, setustofa, heitur pottur og eimbað. Fyrir framan húsið er svo sólpallur og stórt grill. Frá Reykholti er frábært útsýni yfir Breiðafjörð, sannkallaða náttúruperlu sem einkennist af hólmum, skerjum og óteljandi litlum eyjum sem iða af fjölbreyttu dýralífi. Hægt er að komast í siglingar um eyjarnar og einnig er mikið úrval fallegra gönguleiða á svæðinu. 

Á svæðinu:

  • Á Reykhólum eru tvær frábærar heilsulindir, annars vegar sundlaugin góða Grettislaug, og hins vegar hin náttúrulegu þaraböð Sjávarsmiðjunnar.
  • Báta- og hlunnindasýningin á Reykholti kemur gestum í beint samband við lífsbaráttu fyrri alda og útskýrir hvernig hlunnindi í hafinu, á ströndinni og í eyjunum voru nýtt. 
  • Verksmiðja Norður Salts er staðsett á Reykhólum, þar sem hægt er að fræðast um hvernig tvö náttúruöfl; jarðhitinn og Norður Atlantshafið eru samnýtt til þess að framleiða eðal saltflögur. 
  • Hin vinsæla strandlengja Rauðisandur er í um 200 km akstursfjarlægð. Rauðisandur einkennist af fallega lituðum rauðum sandi sem getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og svartur eftir því hvernig birtuskilyrðin eru. 
  • Látrabjarg, stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum Evrópu er í einungis þriggja klukkustundar akstursfjarlægð. 
  • Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn er einungis í um 200 km fjarlægð. Safnið veitir innsýn í sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þar er einnig að finna sýningu um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 og hattinn hans Gísla á Uppsölum.

Við hjá Farfuglum leggjum okkur statt og stöðugt fram við að standa undir orðspori okkar sem leiðtogar á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu. Við tökum virkan þátt í að efla sjálfbærni í okkar samfélögum og sýnum það í verki í allri okkar starfsemi og stefnu.  

Hvað er í boði