Fara í efni

Icelandic Lava Show

Upplifðu alvöru rennandi hraun í návígi! Ógleymanleg skemmtun!

Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal endurskapar aðstæður eldgoss með því að hita hraun upp í 1100°C og hella því svo inn í sýningarsal fullum af fólki! Hvergi annars staðar í heiminum getur fólk upplifað rauðglóandi hraun í svo miklu návígi með öruggum hætti. Frábær sýning sem samtvinnar á einstaklega eftirminnilegan máta fræðslu, skemmtun og heimsklassa upplifun þar sem efniviðurinn er rennandi hraun! Sannkölluð veisla fyrir skynfærin og ógleymanleg upplifun fyrir unga sem aldna. 

Icelandic Lava Show er hugarfóstur hjónanna Júlíusar Inga Jónssonar og Ragnhildar Ágústsdóttur en hugmyndin kviknaði þegar þau fóru upp að gosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 og sáu hraunfossinn og ótrúlegt samspil hraunsins við ísinn allt um kring. Í lok árs 2015 sagði Júlíus starfi sínu lausu og hafa þau hjónin unnið að því að koma fyrirtækinu á laggirnar æ síðan. Það var svo í september 2018 sem Icelandic Lava Show opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi og viðtökurnar hafa verið hreint frábærar líkt og sjá má á einkunnasíðum á borð við TripAdvisor og Google Maps. Hér er því um að ræða ungt og efnilegt fjölskyldusprotafyrirtæki sem er vel þess virði að heimsækja.

Nánari upplýsingar:

  • Lengd: ca 45-50 mínútur (fer eftir fjölda spurninga og stemmningu í salnum)
  • Aldur: Hentar öllum aldurshópum (en börn þurfa að vera í fylgd fullorðinna)
  • Staður: Víkurbraut 5, Vík í Mýrdal (í gamla Kaupfélagshúsinu)
  • Stund: fastir sýningartímar þar sem það tekur marga klukkutíma að bræða hraun - sjá tímasetningar og hvað er laust á icelandiclavashow.com
  • Mæting: það borgar sig að vera mætt/ur amk. 15 mínútum áður en sýningin hefst
  • Fatnaður: forðist að vera of mikið klædd því það hitnar mjög snögglega þegar rauðglóandi hraunið rennur í sýningarsalinn
  • Tungumál: oftast á ensku (nema ef allir í salnum skilja íslensku) - munum auglýsa séríslenskar sýningar í sumar
  • Hópar: Icelandic Lava Show er frábær skemmtun fyrir hópa og tekur allt að 50 manns í sæti á hverja sýningu. Hægt er aðlaga tíma að hópum. Fyrir tilboð, sendið okkur póst á info@icelandiclavashow.com

Lýsing á sýningunni sjálfri

  1. Í upphafi er stuttur inngangur þar sem sýningarstjórinn býður alla velkomna og leiðir fólk í allan sannleika um upplifunina, hvað hún felur í sér, hvernig hugmyndin kviknaði og afhverju Vík í Mýrdal varð fyrir valinu (ca 10-12 mínútur)
  2. Að innganginum loknum er sýnd stutt fræðslumynd af stað þar sem annars vegar er farið yfir það afhverju Ísland er svona virk eldfjallaeyja með áherslu á eldfjöllin í nágrenni Víkur. Hins vegar er sögð ótrúleg flóttasaga Jóns Gíslasonar, langafa sýningarstjórans og annar stofnanda Icelandic Lava Show, undan Kötlugosinu 1918 og hamfarahlaupinu sem því fylgdi (12 mínútur)
  3. Hápunktur sýningarinnar er svo þegar 1100°C heitu hrauninu er hellt inn í sýningarsalinn. Það er ólýsanleg tilfinning að sjá, heyra og finna hraunið renna inn í salinn - sannkölluð veisla fyrir skynfærin! Þegar hraunið rennur inn í rökkvaðan sýningarsalinn er eins og sýningargestir verði vitni að sólarupprás, svo skært er rauðglóandi hraunið. Þá finna gestir lyktina af bráðnu hrauninu þar sem það byrjar að storkna og heyra um leið hvernig það kraumar, bullar og snarkar. Það allra tilkomumesta er þó hitinn sem skellur á sýningargestum. Það er gífurlegur hitinn sem kemur flestum á óvart. Sýningarstjórinn gerir svo alls kyns æfingar með rauðglóandi hraunið sem er heillandi að fylgjast með en um leið ótrúlega upplýsandi (ca 20-25 mínútur)
  4. Að sýningu lokinni gefst svo öllum færi á að spyrja spurninga sem sýningarstjórinn reynir að svara eftir bestu getu. (ca 5 mínútur)

Allar nánari upplýsingar á icelandiclavashow.com 

Hvað er í boði