Fara í efni

Hótel Bjarkalundur

Hótel Bjarkalundur í Reykhólasveit stendur í fögru og stórbrotnu umhverfi við þjóðveginn milli Berufjarðar og Þorskafjarðar. Það var byggt árið 1945-1947 og er elsta sumarhótel landsins. Frá Bjarkalundi liggja vegir til allra átta: suður til Reykhóla, norður til Hólmavíkur og Ísafjarðar og vestur á suðurfirðina þar sem við blasir íslensk náttúra í sinni fegurstu og dulmögnuðustu mynd. Fjölmargar gönguleiðir eru við Bjarkalund. Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa gefið út ýmis kort og handhægar leiðarlýsingar á þessu svæði.

Skammt frá Bjarkalundi er afleggjarinn til Reykhóla, sem liggur um hina blómfögru Barmahlíð. Rétt hjá Bjarkalundi er Berufjarðarvatn og í það rennur Alifiskalækur út í Þorskafjörð. Eru þar fyrstu heimildir um fiskirækt á Íslandi. Merkileg og falleg náttúrufyrirbæri eru í næsta nágrenni við Bjarkalund. Vaðalfjöllin gnæfa tignarlega norðan við hótelið. Frá Bjarkalundi upp að Vaðalfjöllum er góð gönguferð. Þar má skoða þessa stórfenglegu náttúrusmíð. Hægt er að fara alla leið upp og notið hins einstæða útsýnis úr rúmlega 500 metra hæð. Þar sér niður á Þorskafjörðinn, en við fjarðarbotninn voru Kollabúðafundir haldnir á 19 öld.

Hvað er í boði