Fara í efni

Skíðasvæðið Hlíðarfjalli

Hlíðarfjall hefur verið í fremstu röð skíðasvæða á Íslandi í 60 ár. Á skíðasvæðinu eru 8 mismunandi lyftur og fjölbreyttar og skemmtilegar skíðabrekkur með frábæru útsýni yfir Eyjafjörð. Stökkpallar og brautir eru fyrir snjóbrettafólk og aðstaða fyrir gönguskíðafólk er góð. Gönguskíðabrautir allt frá 1,2 – 10 km eru lagðar þegar veður og aðstæður leyfa og eru yfirleitt troðnar einni klst. fyrir auglýstan opnunartíma. Hluti af gönguskíðabrautinni, 3,5 km, er upplýstur á hverjum degi til kl. 22:00. Það ættu allir að geta fundið brekkur við sitt hæfi. Snjóframleiðslukerfi er í Hlíðarfjalli sem tryggir gott færi allan veturinn.

Skíða- og snjóbrettaskóli Hlíðarfjalls er fyrir börn á aldrinum 5-15 ára. Einnig eru námskeið í boði fyrir fullorðna svo og einkakennsla fyrir alla aldurshópa. Veitingasala er á tveimur stöðum í Hlíðarfjalli, í skíðahótelinu sjálfu og Strýtuskála. Í Hlíðarfjalli er starfrækt skíða- og snjóbrettaleiga þar sem hægt er að leigja allan búnað.

Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða til útivistar á sumrin og boðið er uppá lyftuferðir fyrir gangandi og fjallahjólara sem geta tekið hjólin með sér í lyftuna. Sex fjölbreyttar hjólabrautir eru í Hlíðarfjalli og liggja þrjár þeirra yfir í Glerárdal. Brautirnar eru unnar í samvinnu við Hjólreiðafélag Akureyrar. Fyrir þá sem eru gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er svo merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátind, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul og á góðviðrisdögum má oft sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.

Hvað er í boði