Fara í efni

Upplýsingamiðstöð Grundarfjarðar

Í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði er að finna fjölbreytta starfsemi. Þar er bókasafn til staðar og Upplýsingamiðstöðin í Grundarfirði. Gestir geta tyllt sér inn í Bæringsstofu og notið myndasýningar frá seinni hluta síðustu aldar. Saga þéttbýlisins er sögð með ljósmyndum Bærings Cecilssonar (1923 - 2002) heiðursborgara Grundarfjarðarbæjar sem ljósmyndaði uppbyggingu og mannlíf í Grundarfirði. Góð fundaraðstaða er í Bæringsstofu og er hún í boði allt árið samkvæmt samkomulagi.

Þórðarbúð er eftirlíking af nýlenduvöruverslun Þórðar Pálssonar sem breytti búðinni sinni í jólabúð á jólaföstunni. Leikföng og bækur eru kunnugleg fólki sem var á barnsaldri á sjötta og sjöunda áratugnum.

Báturinn Brana frá Vatnabúðum er sexæringur frá 1913, út eik með dæmigerðu breiðfirslu lagi. Kringum hann er hjallur og verkstæði fiskimanns og snikkara.

Gömul fallbyssa úr frönskum hvalfangara frá 1720 fannst við sandtöku í Kirkjufellssandi 1995 og stendur hún á nýjum vagni í Sögumiðstöðinni.

Leiksvæði barna er búið nútíma kubbasafni og gömlum leikföngum sem börn á fyrri tíð léku sér með, skeljum, hornum og beinum.

Starfsfólk á Upplýsingamiðstöðinni leitast við að veita ferðafólki leiðsögn innan og utan bæjarins og um Snæfellsnesið allt. þjónusta og afþreying er fjölbreytt á svæðinu, s.s. verslun, kaffihús og veitingastaðir, hestaferðir, kajakferðir, bátsferðir, hvalaskoðun, sjóstöng og fuglaskoðun. Golfvöllur er í nágrenninu og gönguleiðir frá fyrri tíð liggja upp í fjallgarðinn og útsýni þaðan yfir Kirkjufellið er stórkostlegt.

Sumaropnun: 1. júní - 31. ágúst, alla virka daga frá 13:00 til 17:00.
Vetraropnun: 1. september - 31. maí.
Uppfærðir tímar: https://www.facebook.com/UpplysingamidstodGrundarfjardar/

Yfir vetrartímann er hægt að ná símasambandi við Upplýsingamiðstöðina mánudegi til fimmtudags klukkan 13:00 - 17:00. Á sama tíma er bókasafnið opið. Tölvupóstur: touristinfo@grundarfjordur.is

Hvað er í boði