Fara í efni

Vesturfaramiðstöð Austurlands

Vesturfaramiðstöð Austurlands er staðsett í menningarmiðstöðinni Kaupvangi.

Í garðinum framan við Kaupvang stendur minnisvarði um þá Vopnfirðinga sem fóru til Vesturheims. Línur úr ljóði Stephans G. Stephanssonar, Úr Íslendingadags ræðu, eru letraðar á steininn.

Vesturfarinn rekur Vesturfaramiðstöð Austurlands. Vesturfarinn er félag áhugasamra um að efla samband við afkomendur vesturfara sem fóru frá Austur- og Norðausturlandi, sérstaklega frá Vopnafirði og öðrum stöðum í Múlasýslum og Þistilfirði eftir Öskjugosið 1875.

Boðið er upp á ættfræðiþjónustu en þá er farið aftur í tímann í leit að ættingjum og tengingar við samtímann leitað. Einnig er boðið upp á aðstoð við að undirbúa heimsókn til Íslands þar sem fólk getur hitt sína ættingja hér og komist á sínar ættarslóðir.

Á hverju ári koma Vestur-Íslendingar frá Kanada og Bandaríkjunum - stundum jafnvel frá Brasilíu - til Vopnafjarðar og annarra staða á Austurlandi. Menn fá á tilfinninguna að þeir séu að snúa heim. Standandi á sínum upprunastað líta þeir á umhverfið, fjöll, ár og vötn, jafnvel með tárin í augunum. Fólk kemur ýmist eitt eða í litlum hópum; iðulega vel upplýst og oft með sögu fjölskyldunnar, ættartölurnar og fjölskyldumyndir í fórum sínum.

Opnunartímar:
Mánudaga og fimmtudaga: 10-16
Tökum annars glöð á móti gestum á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hvað er í boði