Fara í efni

Bergshús

Virðulegt timburhús byggt 1905, staðsett við höfnina á Flateyri.

Húsið var byggt 1905 af Bergi Rósinkranssyni og var því upphaflega kallað Bergshús. Húsið hefur líka borið önnur nöfn sem lýsa notkun þess og eignarhaldi; Læknishúsið, Forstjórahúsið, Rafnshús og Ástralía – ekki af því að Ástralía hafi átt það, heldur vegna þess að húsið var á tíma verbúð sem hýsti ástralskar verkakonur. Það ætti kannski bara að heita Vilhelmínuhús eftir konu Bergs, það var hún sem lét byggja þetta hús.

Núverandi eigendur - nokkrar samhentar fjölskyldur sem búa fyrir sunnan en elska að vera á Flateyri - hafa endurnýjað tvær aðalhæðir hússins, og endurheimt sjarma þessa virðulega húss. Eftir eru endurbætur í risi og á ytra byrði. Húsið er rúmgott, neðri hæðin að mestu opið rými fyrir eldhús/stofu/borðstofu með mikill lofthæð. Uppi eru fjögur svefnherbergi, tvö þeirra mjög stór. Baðherbergi með sturtu eru á báðum hæðum. Svefnpláss fyrir 8 manns. Garður umlykur húsið á tvo vegu, og það er heitur pottur í palli bakvið hús, þar er einnig gasgrill.

Fjaran og höfnin, hjarta Flateyrar, er aðeins 30 metra í burtu. Örstutt labb á Bryggjukaffi þar sem fiskisúpan slær alltaf í gegn og á Vagninn, sem er afslappað veitingahús og krá, þar sem oft koma fram frábærir listamenn, haldin eru “bar-gisk" og fleira skemmtilegt brallað.  

Fjölmargar gönguleiðir eru í nágrenni Flateyrar og boðið er upp á þjónustu göngugæda, þar sem því verður komið við. Stuttur akstur er yfir á Holts bryggju, en þar er hvít strönd sem er vinsæll viðkomustaður.

 

Finnið okkur á Facebook hér.

Hvað er í boði