Fara í efni

Svalþúfa og Þúfubjarg á Snæfellsnesi

Snæfellsbær

Svalþúfa og Þúfubjarg á Snæfellsnesi er stór móbergshöfði skammt austan við Lóndranga. Framhluti höfðans heitir Þúfubjarg og í fyrndinni var talið að Kolbeinn Grímsson jöklaskáld og Kölski hefðu kveðist þar á. Svalþúfa er hins vegar grasi gróið svæði sem ekki mátti slá því hún var talin eign álfa.

Bílastæði er þar sem Þúfubjargið gengur þverhnípt í sjó fram. Gönguleið er frá bílastæðinu upp á Þúfubjarg og þaðan niður af bjarginu, um hraunið fram hjá Lóndröngum. Þetta er mjög falleg gönguleið þar sem margt er að sjá og skoða.

Kölski og Kolbeinn jöklaskáld Grímsson höfðu ákveðið að kveðast á, skyldu þeir sitja hvor hjá öðrum á Þúfubjargi, þegar brim væri mikið. Fyrri hluta næturinnar ætti Kölski að gera fyrri partana og Kolbeinn botna hjá honum og hlutverkin skyldu síðan snúast við er leið á nótt. Sá sem ekki gæti botnað hjá honum myndi steypast ofan af bjarginu og vera þaðan í frá á valdi hins.  

Settust þeir út á bjargið eina nótt er tungl óð í skýjum. Fyrrihluta nætur gengur Kolbeini vel að botna vísur Kölska. Síðla nætur er, Kölski skyldi botna, gengur það allvel uns Kolbeinn tekur upp hníf úr vasa sínum, heldur honum fyrir framan glyrnurnar á Kölska svo eggin bar við tunglið og segir um leið:

Horfðu í þessa egg, egg
undir þetta tungl, tungl.

Varð Kölska þá hreinlega orðfall því hann fann ekkert íslenskt orð sem rímaði á móti tungl og segir í vandræðum sínum: „það er ekki skáldskapur að tarna Kolbeinn.“ En Kolbeinn botnar vísuna samstundis og segir:

Ég steypi þér þá með legg, legg,
lið sem hrærir ungl, ungl.

Er Kölski heyrir þetta, beið hann ekki boðanna, steyptist ofan af bjarginu í eina brimölduna og bauð ekki Kolbeini til að kveðast á eftir þetta.