Fara í efni

Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður

Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins.

Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum.

Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni.

Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.