Fara í efni

Vitarnir á Garðskaga

Fyrstu  heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari