Fara í efni

Villingaholtskirkja

Selfoss

Villingaholt er kirkjustaður og var löngum stórbýli. Á 17. öld var hér prestur, Jón Erlendsson en hann var afkastamesti handritaskrifari landsins. Hann á sinn mikla þátt í að varðveita ýmsar helstu perlur handritanna með því að skrifa þau upp, m.a. að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups. Frægasta ritið sem séra Jón bjargaði þannig frá glötun er Íslendingabók, en mörg handrita okkar eru rituð með hendi Jóns. Síðar bjó hér þjóðhagsmiðurinn og bóndinn, Jón Gestsson (1863-1945) en frá honum er komin mikil ætt hagleiksfólks. Jón teiknaði og byggði núverandi Villingarholtskirkju á árunum 1910-1911. Kirkjan er bárujárnsklædd úr timbri og á hlöðnum grunni. Kirkjan er með turni og sönglofti og tekur 100 manns í sæti.  Ef gengið er syðst á lóð Þjórsárvers má sjá gamlan bæjarhól en þar stóð Villingaholtskirkja og bæjarhúsið áður. Í kjölfar viðverandi sandfoks og mikils tjóns í suðurlandsskjálftanum árið 1784 voru þau flutt um set að núverandi stað. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.