Fara í efni

Útskálakirkja

Suðurnesjabær

Kirkjustaður og prestsetur í Garði. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra-Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni og tekur um 200 manns í sæti. Forsmiður var Einar Jónsson frá Brúarhrauni.

1975 var forkirkja stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin.

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.

Altaristaflan er eftr erlendan málara og sýnir boðun Maríu, predikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykajvík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.

Séra Sigurður B. Sívertssen var prestur að Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum s.s. jarðabótum, og húsbyggingum, m.a. lét hann byggja kirkjuna sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál sem hann skrifaði.

Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð, hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkju er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri trú voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðarsögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8.mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum, um nóttina rak 47 lík á land í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju á Íslandi.