Fara í efni

Skálar á Langanesi

Þórshöfn

Skálar var þorp á Langanesi þar sem um tíma var blómlegt fiskimannasamfélag.

Í þorpinu á Skálum er að finna minjar um líf sem var. Hér stóð blómlegt þorp þar sem íbúarnir byggðu afkomu sína á útgerð. Þegar fjölmennast var á þriðja áratug 20. aldar bjuggu í þorpinu um 120 manns en helmingi fleiri á sumrin þegar vertíð stóð yfir.

Breyttar aðstæður í útgerð og samgöngum, tundurduflasprengingar og ýmislegt fleira varð til þess að á sjötta áratug síðustu aldar lagðist byggðin af.

Inn í sögu þorpsins fléttast áhrif hlunninda á búsetu, síðari heimsstyrjöldin, breytingar á samgöngum, örlög einstakra fjölskyldna og margt fleira.

Enn má sjá þar grunna margra húsanna, gamla bryggju og ýmsar aðrar minjar.

Upplýsingabæklingur um Skála fæst í íþróttamiðstöðinni á Þórshöfn og hjá ferðaþjónustuaðilum. Margar rústanna hafa verið merktar með númeri og nafni og má lesa um húsin í bæklingnum.