Fara í efni

Minnisvarði um Vopnfirðingasögu

Vopnafjörður

Vopnfirðingasaga er ein af bókum Íslendingasagnanna. Talið er að hún hafi verið rituð á fyrri hluta 13. aldar (1225-1250) og gerist hugsanlega á tímabilinu 960-990. Söguslóðir eru í Vopnafirði og í raun á mjög afmörkuðu svæði, að mestu í austanverðum Hofsárdal, frá Böðvarsdal við sjó og inn til dala og heiða. Í dag er auðvelt að komast að og/eða sjá flesta staði sem getið er í sögunni. Vopnfirðingasaga lýsir átökum tveggja höfðingjaætta sem snúast um ágirnd, græðgi, valdabaráttu og vináttu, auk þess sem fjölbreyttar persónu- og mannlífslýsingar einkenna söguna. 

Í fornleifarannsóknum árið 2006 fannst skálatóft frá tímum hinna fornu Hofverja rétt við kirkjuna á Hofi.

Ein aðalpersóna sögunnar Helgi Þorgilsson, sem síðar fékk viðurnefnið Brodd-Helgi var alinn upp á Hofi og varð síðar bóndi og goðorðsmaður á Hofi. Þegar Helgi var ungur batt hann mannbrodd á enni griðungs þannig að honum gengi betur í baráttu við önnur naut og kemur viðurnefnið þaðan. Á unglingsárum blandaði Brodd-Helgi sér í deilur bændanna Svarts og Skíða og fékk Svart dæmdan sekan. Svartur flúði upp á Smjörvatnsheiði. Brodd-Helgi sótti þar að honum vígalegur mjög með skjöld og steinhellu sem hann girti í brók sína neðan við skjöldinn. Felldi hann Svart og varð af því frægur.

Frá barnæsku var mikið vinfengi með Brodd-Helga og Geiti í Krossavík. Brodd-Helgi átti Höllu, systur Geitis, og sonur þeirra Bjarni Brodd-Helgason var fóstraður upp í Krossavík. En afskipti þeirra vina af örlögum og eigum Hrafns Austmanns sem hafði vetursetu í Krossavík og hvarf þegar setið var að vetrarblóti í Haga varð til þess að vinátta þeirra kólnaði. Brodd-Helgi skildi við Höllu og kvæntist Þorgerður silfru úr Fljótsdal. Deilumál þeirra fyrrum vinanna mögnuðust og urðu að fullum fjandskap.

Þingmenn þeirra Geitis og Brodd-Helga lentu í deilum og allt varð til að slíta vinfengi þeirra. Jókst ójöfnuður Brodd-Helga svo að bændum þótti nóg komið. Talið er að Geitir hafi fellt Brodd-Helga á vorþingi í Sunnudal. Fyrir áeggjan Þorgerðar stjúpu sinnar vó Bjarni Geiti fóstra sinn og frænda. En sagan var ekki öll. Þorkell sonur Geitis tók við goðorði föður síns en Bjarni Brodd-Helgason við goðorði að Hofi. Höfðu þeir alist upp saman í Krossavík og voru systkinasynir.

Bjarni reyndi að sættast við Þorkell en tókst ekki og Þorkatli mistókst í þrígang að hefna. Lokaátökin urðu svo á orustuvelli við Eyvindarstaði. Bjarni fór með sigur af hólmi, sættist hann síðar við Þorkell og bauð honum að Hofi til dvalar. Þriggja áratuga hefndum var þar með lokið.