Fara í efni

Minningarkapella sr. Jóns Steingrímssonar

Kirkjubæjarklaustur

Kapellan á Kirkjubæjarklaustri var vígð árið 1974 en hún var byggð í minningu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks (1728-1791) sem söng hina frægu Eldmessu þann 20. júlí árið 1783 í kirkjunni á Klaustri. Telja margir að Eldmessan hafi stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði jörðinni. Hraunstraumurinn stöðvaðist þar sem nú heitir Eldmessutangi og er vestan Systrastapa. Sjá má tóft gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum og nákvæmt líkan af kirkjunni er inni í kapellunni. Kirkja stóð á Kirkjubæjarklaustri til ársins 1859 þegar ákveðið var að flytja kirkjuna, vegna uppblásturs, að prestssetrinu að Prestsbakka. Kirkjugarðurinn er afgirtur og þar eru jarðsettir nokkrar íbúar á Klaustri og þar eru nokkrir gamli legsteinar. Einn þeirra er á gröf séra Jóns Steingrímssonar og Þórunnar konu hans. 

Kapellan var vígð 17. júní þjóðhátíðarárið 1974. Hún rúmar 80 manns í sæti. Arkitektar voru bræðurnir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir.

Klaustrið stóð stutt frá Minningarkapellunni. Fornleifafræðingar rannsökuðu svæði á árunum 2002 – 2005. Margt merkilegra gripa fannst og má sjá mynd á upplýsingaskilti sem sýnir hvernig klausturbyggingin gæti hafa verið.