Fara í efni

Hvalfjörður

Akranes

Hvalfjörður í Hvalfjarðarsveit þykir einn af fegurstu fjörðum landsins. Innst klofnar hann í tvo voga, Brynjudalsvog og Botnsvog. Fyrir botni eru Múlafjall, Hvalfell og Botnssúlur en utar Þyrill og fleiri fjöll.  

Kaupskip komu í Hvalfjörð fyrr á öldum og þar voru verslunarstaðir. Áið 1402 kom Hvala-Einar Herjólfsson þar á skipi sínu og flutti með sér skæðustu drepsótt sem geisað hefur á Íslandi, svartadauða.  

Á árum seinni heimstyrjaldarinnar var Hvalfjörður vettvangur mikilla umsvifa, fyrst Breta og síðan Bandaríkjamanna. Mannvirki voru reist í Hvítanesi, innarlega við fjörðinn þar sem enn sjást leifar en ekki síst í landi Litlasands og Miðsands og oft á tíðum var fjörðurinn fullur af skipum.  

Bryggja var gerð undir Þyrilsklifi og eftir stríð var reist þar hvalstöð sem er hin eina á Íslandi. Enn má sjá minjar frá stríðsárunum og eru þar meðal annars braggar sem hafa verið gerðir upp. 

Þjóðsagan segir að fjörðurinn beri nafni sitt af illhveli nokkru, Rauðhöfða, sem hafi haft aðsetur á Faxaflóa. Rauðhöfði var í upphafi maður er hafði svikið álfkonu og galt fyrir á þennan hátt. Eirði hann engum er náð varð til á sjónum milli Reykjaness og Akraness.  

Meðal þeirra sem hann grandaði voru synir blinds prest er sat í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Sá var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Prestur reiddist mjög og ákveður að granda hvalnum. Hann seiðir Rauðhöfða inn fjörðinn, eftir Botnsá og að gljúfrinu. Þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf. Er hvalurinn ruddist áfram upp fossinn glumdi í björgum og jörðin hristist. Heitir fossinn eftir það Glymur og hæðirnar fyrir ofan hann, Skjálfandahæðir.  

Prestur linnti ekki látum fyrr en hvalurinn var kominn upp í vatnið fyrir ofan fossinn. Heitir það síðan Hvalvatn, fellið þar nærri Hvalfell og fjörðurinn Hvalfjörður. En er Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni og sagt er að það hafi fundist gríðarlega stór hvalbein sem þykja vera sögunni til staðfestingar.