Fara í efni

Hofskirkja

Vopnafjörður

Prestsetrið á Hofi hefur skipað stóran sess í sögu Vopnafjarðar frá upphafi, bæði sem stórbýli og höfðingjasetur. Þar var höfuðstaður Hofverja, ættar sem fór með annað tveggja goðorða í Vopnafirði á 10. öld. Á Hofi bjó einnig eini prestvígði höfðinginn í Vopnafirði á 12. öld, Finnur Hallsson. Minnisvarði um Vopnfirðingasögu stendur við afleggjarann að Hofi.  

Talið er að fyrsta kirkjan á Hofi hafi verið byggð stuttu eftir kristnitöku. Kirkjan sem nú er í notkun var byggð árið 1901 en hún tók við af torfkirkju frá miðöldum. Hönnuður hennar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Kirkjan stendur í Hofskirkjugarði, fallegum garði þaðan sem er gott útsýni yfir Hofsárdalinn.