Fara í efni

Heydalir (Eydalir )

Breiðdalsvík

Kirkja hefur verið að Heydölum frá fyrstu tíð kristni. Prestsetrið hefur löngum verið með betri brauðum á Íslandi og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Frægastur þeirra er sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem kunnastur er fyrir jólasálminn Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði, en er nútímamönnum tamast sem Nóttin var sú ágæt ein. Minnisvarði um sr. Einar stendur á grunni gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum að Heydölum.

Kirkjan sem nú stendur í Heydölum var vígð 13. júlí árið 1975 og var gamla kirkjan afhelguð sama dag. Gamla kirkjan var smíðuð 1856 en hún brann til kaldra kola 17. júní 1982.  

Nafnið á staðnum er eitthvað á reiki, sumir tala um Heydali og Heydala er getið bæði í Landnámu og Njálu. Aðrir talra um Eydali, sérstaklega eldra heimafólk í Breiðdal, auk þess sem sr. Einar Sigurðsson er gjarnan kenndur við Eydali. Staðurinn er jöfnum höndum nefndur Heydalir og Eydalir í gjörðabók Heydalasóknar sem hefur verið í notkun frá 1909 en í dag er opinbert nafn staðarins Heydalir.