Fara í efni

Drangey

Sauðárkrókur

Drangey rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði.  Frá henni er víðsýni mikið um byggðir fjarðarins.  Hún er að mestu úr móbergi, hrikalegt hamravígi.  Er hennar fyrst getið í Grettis sögu en þar hafðist útlaginn við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi og þar var hann veginn, helsjúkur, í skála sínum af Þorbirni öngli og mönnum hans.  Það mun hafa verið nær veturnóttum árið 1031.
Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda.  Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því.  Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum.  Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland.

Daglegar ferðir eru í Drangey frá Sauðárkróki, frá 20. maí til 20. ágúst, en þess utan eftir samkomulagi við Drangey Tours.