Fara í efni

Borg á Mýrum

Borgarnes

Borg á Mýrum í Borgarfirði er landnámssetur, kirkju- og prestssetur. Bærinn stendur fyrir botni Borgarvogs og er landnámsjörð Skallagríms Kveldúlfssonar er nam Borgarfjarðarhérað. Hann var faðir Egils Skallagrímssonar og niðjar þeirra bjuggu lengi síðan á Borg.  

Egill var höfuðskáld Íslendinga að fornu, einn af höfuðköppum sögualdar á Íslandi. Um hann fjallar Egils saga Skallagrímssonar. Í eldri hluta Borgarness eru götur nefndar eftir sögupersónum í Egilssögu, eins og Skallagrímsgata, Egilsgata, Kveldúlfsgata og fleiri.  

Minnismerkið Sonatorrek eftir Ásmund Sveinsson var reist á Borg 1985. Það er tilvitnun í kvæði eftir Egil Skallagrímsson sem hann orti eftir lát sona sinna.  

Kirkja á Borg var helguð Mikael erkiengli í kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist 1880. Altaristafla kirkjunnar er eftir enska málarann W.G. Collingwood sem hann málaði eftir Íslandsferð sína 1897.