Fara í efni

Arnarstapi

Snæfellsbær

Arnarstapi á Snæfellsnesi er vinsæll ferðamannastaður fyrir alla fjölskylduna. Þar eru góðar gönguleiðir, hótel, tjaldsvæði, gistihús og veitingastaðir. Frá Arnarstapa er einnig boðið upp á ferðir á Snæfellsjökul. Stapafell er þar fyrir ofan.

Arnarstapi er úr alfaraleið og mikilvægt er að hafa samband við þjónustuaðila ef koma á með hópa inn á svæðið sem nýta sér þjónustuna sem þar er í boði.

Ströndin við Arnarstapa er ákaflega fögur og sérkennileg, einkennilega mótuð af briminu. Gönguleiðin milli Arnarstapa og Hellna er einstaklega skemmtileg og að hluta til gömul reiðgata. Hún er við allra hæfi og er ströndin er friðlýst.  

Arnarstapi var áður fyrr kaupstaður, sjávarpláss með miklu útræði og lendingin var talin ein sú besta undir Jökli.  

Smábátahöfnin var endurbætt árið 2002 og er í dag eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þangað koma menn af ýmsum stöðum á landinu og gera út dagróðrabáta yfir sumartímann.  

Arnarstapa er getið í Bárðar-sögu Snæfellsáss og þar er steinlistaverkið Bárður Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara sem setur mikinn svip á svæðið.