Fara í efni

Vogastapi

Hét á landnámsöld Kvíguvogabjörg en seinna nefndur Vogastapi, stundum aðeins Stapi, einkum af heimamönnum.  Grágrýtishæð (80 m.y.s.) milli Vogavíkur og Njarðvíkur, þverhníptur að framan en með aflíðandi halla inn til landsins.  Stapinn er gróðurlítill og víða mjög blásinn.  Sunnan í honum liggur Reykjanesbraut.  Af Grímshóli, hæst á stapanum er mikil og góð útsýn og einnig útsýnisskífa sem Ferðafélag Keflavíkur lét reisa.  Grímshóls er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar.  

Á Vogastapa hefur þótt reimt allt fram á þennan dag enda hafa margir villst þar fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað fram af Stapanum eða orðið úti.  Áður fyrr vildu menn yfirleitt ekki fara yfir Stapann að næturlagi, væru þeir einir á ferð.  Á seinni áratugum hafa sumir vegfarendur, sem leið hafa átt um Stapann þóst sjá þar mann á ferli með höfuð undir hendinni þannig á sig kominn átti hann það til að setjast inn bíla ef menn voru einir á ferð.