Fara í efni

Víknaslóðir

Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu.

Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.