Fara í efni

Vatnajökulsþjóðgarður

Öræfi

Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.701 ferkílómetrar) og er þar með næst stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins.

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.

Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 7.780 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram.

Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa.

Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands.

Vatnajökulsþjóðgarður
Skaftárstofa
Skaftafellsstofa