Fara í efni

Öræfajökull

Hæsta fjall landsins (2110 m y.s.), suður úr Vatnajökli miðjum, eldkeila. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrir ofan 1000 m hæð er fjallið jökli hulið nema nokkrir klettaveggir í tindum, neðar bungar það út í meira og minna sjálfstæð randfjöll og verður því mikið um sig. Er það og annað stærsta virka eldfjall í Evrópu, næst Etnu á Sikiley, þvermál við rætur yfir 20 km og grunnflötur nær 400 km² en rúmtak nálægt 370 km³.

Öræfi og Öræfajökull eru nöfn sem urðu til eftir eyðingu byggðar af völdum goss í fjallinu 1362 er áður hét Knappafell. Fer það nafn því vel, dregið af tindum þeim sem sitja á barmi öskjunnar í kolli þess og mest ber á frá suðri en tveir þeirra heita Knappar og þar af leiðir bæjarnafnið Hnappavellir. Hvannadalshnjúkur á vesturbrún öskjunnar er hæstur allra tindanna og rís um 300 m yfir marflata hjarnsléttu öskjunnar. Hann er úr líparíti.

Mikill gígur eða ketilsig er í kolli fjallsins, sporöskjulaga, nær 5 km á lengri veginn og um 12 km² að flatarmáli. Að sjálfsögðu er hún full svo að flóir út af enda bætist á jökulinn allt að 10 m af snjó árlega sem samsvarar yfir 4000 mm ársúrkomu og er hún hvergi meiri hér á landi. Um dýpstu skörðin í börmum öskjunnar skríður jökullinn án afláts og myndar skriðjökla, sem falla úr 1800 m hæð alla leið niður á láglendið. Í bröttum hlíðum verða réttnefndir jökulfossar og heitir Falljökull einn hinn mesti þeirra. Aðrir stórjöklar utan í fjallinu eru Kvíárjökull og Fjallsjökull til suðausturs og hinn mikli Svínafellsjökull sem fellur til vesturs frá Hvannadalshnúki.

Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið er mesta vikurgos sem orðið hefur hér á landi síðan um 800 f.Kr., gjóska áætluð um 10 km³. Gosinu fylgdi ógurlegt vatnsflóð með jakaburði og tók af marga bæi en byggð lagðist í auðn um sinn.

Seinna gosið stóð nærfellt í ár, ákafast fyrstu 3 dagana með öskufalli og myrkri svo að vart sá skil dags og nætur. Drengur fórst og konur tvær sem voru í seli frá Sandfelli, einnig fórst margt búfjár en ekki tók af bæi. Mikið hlaup lagðist þó í fyrstu heim að Sandfelli og austur með Hofi og er þar enn ummerki að sjá, til dæmis báðum megin Kotár, Háöldu að vestan, með stóru, friðlýstu jakafari, og Svartajökul og Grasjökul að austan.

Engin sögn er um ferð á Öræfajökul fyrr en 11. Ágúst 1794 er Sveinn Pálsson gekk á jökulinn frá Kvískerjum. Í þeirri ferð mun hann einna fyrstur manna í heiminum hafa gert sér grein fyrir að skriðjöklar hreyfast eins og seigfljótandi efni sem hnígur undan eigin þunga. Þarna hafði hann góða yfirsýn, meðal annars yfir Fjallsjökul, veitti athygli “árhringum” skriðjökulsins, svigðum eða skárum, og dró réttar ályktanir af því sem hann sá.

Fyrstur til að ganga á Hvannadalshnjúk varð norskur landmælingamaður, Hans Frisak, ásamt Jóni Árnasyni, hreppstjóra á Fagurhólsmýri, sem hann fékk til fylgdar 19. Júlí 1813. Svo leið fram undir aldamót að enginn lék þetta eftir þar til F.W. Howell gekk á Hvannadalshnjúk 1891 ásamt tveim fylgdarmönnum frá Svínafelli. Úr því fór ferðum að fjölga og þykir það nú ekki lengur tíðindum sæta að ganga á hæsta tind Íslands. 

Skaftafellsstofa