Fara í efni

Núpsstaðarskógar

Kirkjubæjarklaustur

Núpsstaðarskógar 

Núpsstaðarskógar eru í landi Núpsstaðar en Núpsstaður er austasti bærinn í Skaftárhreppi og stendur
við Lómagnúp. Á Núpsstað standa einkar merkileg gömul bæjarhús sem talin eru dæmigerð fyrir bæi á Íslandi á síðustu öldum. Þeirra merkast er bænhúsið sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á landinu. Fegurð umhverfisins við Núpsstað er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til
Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.

Núpsstaðarskógar eru sérlega fagurt kjarrlendi sem vex í hlíðum Eystrafjalls, vestan Skeiðarárjökuls og sunnan Grænalóns. Þarna vex fjölbreyttur gróður og gaman er að ganga um svæðið. Þarna er margt að sjá og landslag á svæðinu er víða mikilúðlegt og verður minnisstætt þeim sem á annað borð leggja á sig ferð þangað. Leiðin inn í Núpsstaðarskóga liggur nú austan Núpsvatna og það þarf ekki lengur að fara yfir jökulár en slóðinn er þó aðeins fær jeppum. Til fróðleiks má geta þess að í Núpsstaðarskógum gekk úti villifé á 19. öld.