Fara í efni

Mýrdalssandur

Vík

Mýrdalssandur takmarkast af Höfðabrekkuheiði að vestan, Mýrdalsjökli að norðan og Skaftártungu og Álftaveri að austan en hafi að sunnan. Hann er talinn um 700 km². Suðuroddi hans, Kötlutangi, er syðsti tangi Íslands og þar gengur landið fram af framburði jökulánna og þó sér í lagi Kötluhlaupa en sjávargangur vinnur á móti.

Vestan til er Mýrdalssandur samfelld, gróðurlaus auðn en lítils háttar grasgróður er á honum austanverðum og heita þar Loðinsvíkur. Í fornum sögum segir að skógur hafi verið á honum sunnanverðum, hjá Hjörleifshöfða.

Um Mýrdalssand flæmast nokkur jökulvötn sem koma undan Mýrdalsjökli. Mest þeirra eru Múlakvísl, Skálm og Hólmsá. Stundum hafa þau gert verulegan óskunda, einkum að því er tekur til samgangna og brotið brýr og vegi. Sandurinn er víða mjög fíngerður. Í hvassviðri verður vegurinn yfir sandinn oft ófær sökum sandfoks og hafa margir bíleigendur orðið fyrir stórtjóni vegna þess. 1988 var vegurinn um Mýrdalssand færður sunnar og liggur nú nærri Hjörleifshöfða og lægra en áður. Þarna er snjóléttara en á vegstæðinu ofar á sandinum en í hlákuköflum að vetrinum hefur vatn gert mikinn óskunda á veginum.