Fara í efni

Kaldbakur

Þingeyri

Kaldbakur er hæsta fjall Vestfjarða og er staðsett á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Fjallið er 998 metra hátt og sést vel frá mörgum stöðum á Vestfjörðum. Mörg fjöll á Vestfjörðum hafa flatan topp, sem er vegna legu jökla á ísöld en nokkur fjallana á Vestfjörðum hafa toppa sem minna á Alpana og Kaldbakur er eitt þessara fjalla og því má segja að hann tilheyri "vestfirsku ölpunum". Efst á Kaldbak er flatur blettur en hann hefur þó snarbrattar hlíðar og þaðan er frábært útsýni. Tiltölulega auðvelt er að ganga á Kaldbak, hægt er að keyra eftir jeppavegi að Kvennaskarði, sem skilur að Arnarfjörð og Dýrafjörð, þar er hægt að geyma bílinn og ganga upp á topp. Gangan upp og niður tekur um það bil 4 klst. Einnig er hægt að ganga upp á Kaldbak úr Fossdal í Arnarfirði, sem lengir gönguna um helming en sú leið er mjög falleg og skemmtileg.