Fara í efni

Hamarsfjörður

Djúpivogur

Hamarsfjörður, sem liggur á milli Berufjarðar og Álftafjarðar, er algjör náttúruparadís. Fjörðurinn er einstaklega fallegur og býður upp á marga möguleika til útvistar. Melrakkanes skilur á milli Álftafjarðar og Hamarfjarðar og út af því er Melrakkanesós sem er þröngt sund á milli Stapaeyjar á Starmýrarfjörum og Þvottáreyja sem eru í mynni Hamarsfjarðar, en um ósinn falla firðirnir til hafs. Annað þröngt sund, Holusund, er austan megin Þvottáreyja og liggur þar að Búlandsnesinu.

Við norðanverðan Hamarfjörð er Hálsfjall, en upp af firðinum til vestur gengur Hamarsdalur og eru efstu drög hans við rætur Þrándarjökuls. Í dalnum er að finna grösuga staði en þó er hann víða nokkuð uppblásinn. Um dalinn fellur Hamarsá, sem hefur meginupptök uppi á Hraunum og Hamarsdalsdrögum. Í hana blandast jökulvatn frá Þrándarjökli og getur hún oft verið æði vatnsmikil. Áin rennur fram af mörgum klettabríkum á leið sinni niður framdalinn og myndar fallega fossa. Þegar í dalbotninn er komið fer áin um eyrar, þar til hún rennur til sjávar í botni Hamarsfjarðar.

Úti fyrir Hamarsfirði og Búlandsnesi á Papagrunni er stærsta eyja Austfjarða, Papey, um 2 ferkílómetrar að stærð. Á Búlandsnesi við sunnanverðan Berufjörð er kauptúnið Djúpivogur.

Mælt er með því að taka góðan tíma á ferð um Hamarsfjörð og Álftafjörð, til þess að njóta alls sem svæðið hefur upp á að bjóða.